Í dag var Trump Plaza hótelið og spila­vítið í At­lantic city í New Jer­s­ey í Banda­ríkjunum rifið niður með sprengingu. Í húsinu var eitt sinn eitt stærsta spila­víti svæðisins.

Turninn var sprengdur snemma í morgun og tók ekki langa stund að ná honum niður. Á myndum og mynd­skeiðum má sjá að það tók í raun að­eins nokkrar sekúndur.

Trump Plaza var fyrst þriggja spila­víta sem for­setinn fyrr­verandi átti áður en fjár­hættu­veldi hans í At­lantic City hrundi og hann varð gjald­þrota

Í um­fjöllun New York Times um sprenginguna segir að margir í­búar borgarinnar hafi beðið lengi eftir því að sjá turninn sprengdan burt og allt sem að Trump táknaði með. Spila­vítið opnaði fyrst árið 1984 en eftir að það varð gjald­þrota sleit hann tengsl við fyrir­tækið árið 2009 þrátt fyrir að nafn hans prýddi á­fram bygginguna. Spila­vítinu var lokað fyrir fullt og allt árið 2014. Árið 2016 eignaðist milljarða­mæringurinn Carl C. I­ca­hn það.

Notuð voru um þrjú þúsund stykki af dína­míti til að sprengja turninn og ná tryggðri grindinni niður. Enginn kjallari var í húsinu og því varð allt efni byggingarinnar eftir á jörðinni og nær nærri 25 metra hæð. Borgar­yfir­völd stefna á að fjar­lægja það allt fyrir sumar­lok.

Hér að neðan er hægt að sjá mynd­skeið af sprengingunni.