„Við ætlum ekki að tjá okkur að svo stöddu og verðum bara að vísa þessu til viðeigandi aðila sem eru að skoða málið,“ segir Steinn Pétursson hjá Hótel Borgarnesi í skriflegu svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Fréttablaðið falaðist eftir viðbrögðum hótelhaldara vegna myndar sem tengdadóttir annars hótelstjórans á staðnum tók og birti á Instagram. Myndin er af umdeildum kjörgögnum eftir að kosið var til Alþingis. Að sögn Inga Tryggvasonar, formanns yfirkjörstjórnar í NV-kjördæmi, var myndin að líkindum tekin áður en hann fór sjálfur heim milli talninga. Því hafi kjörgögn ekki verið eftirlitslaus þegar myndin var tekin.

Landskjörstjórn telur að ekki sé hægt að blessa framkvæmd kosninganna, enda er viðurkennt að geymslu kjörgagna var ábótavant og umboðsmenn ekki kallaðir til við endurtalningu. Stórar spurningar hafa vaknað eftir að endurtalning leiddi til mikillar hringekju jöfnunarþingmanna, þar sem fimm duttu út og aðrir fimm komu inn í staðinn. Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, krefst þess að fyrri talning standi, en hann datt út eftir seinni talninguna.

Blaðið spurði hótelstjóra Hótels Borgarness hvort instagram myndin kynni að vera til marks um að reglum hafi ekki verið fylgt, hvort hótelið teldi eðlilegt að starfsmaður birti slíka mynd og hvort símabann hefði verið virt í nálægð kjörgagna.