Hótel Adam var lokað í dag að kröfu Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Forsvarsmönnum hótelsins voru afhent bréf þess efnis á föstudaginn síðastliðinn, og var frest yfir helgina veitt af tillitssemi við þá ferðamenn sem áttu bókaða gistingu á hótelinu. Hótelið hefur reglulega verið til umfjöllunar í íslenskum fjölmiðlum.

Vatnsflöskur og mansal

Hótelið var á skammri stund alræmt eftir að fregnir bárust af því að gestum hótelsins var varað við að drekka vatn úr krönum en þeim ráðlagt að kaupa í stað vatnsflöskur sem til sölu voru á hótelinu. Heilbrigðiseftirlitið framkvæmdi rannsókn á kranavatni hótelsins og sagði í niðurstöðum að ekkert væri að því. Flöskurnar sem voru til sölu í afgreiðslu hótelsins voru merktar Hótel Adam.

En bar Hótel Adam á góma þegar fluttar voru fréttir af meintu mansalsmáli. Greint var frá að starfsmaður hótelsins hefði verið látin deila herbergi með yfirmanni sínum og hótað að hún yrði handtekin ef hún neitaði því. Var greint frá því að hún hafi verið látin vinna alla daga mánaðarins en einungis fengið 60 þúsund krónur í laun. Málið var ekki rannsakað sem mansalsmál, enda treysti konan sér hvorki til að hafa samband við lögreglu né stéttarfélag.

Konan í ofangreindu mál reyndist vera Kristýna Králová. Kristýna er tékknesk, og sagði frá reynslu sinni í forsíðu viðtali Stundarinnar fyrr í sumar. Sagði hún frá því að Ragnar Guðmundsson, eigandi hótelsins, hafi sannfært hana um að koma til Íslands til að vinna. Þáði hún boðið enda atvinnulaus og skuldug. Hún greindi frá því að Ragnar hafi látið hana sofa í sama rúmi og hann og ítrekað reynt að sofa hjá sér. Að sögn Kristýnu á Ragnar að hafa sagt við hana að lögreglan myndi handtaka hana skyldi hún leita sér hjálpar, enda væri hún ólöglegur innflytjandi. Kristýna vann síðar mál gegn Ragnari vegna kröfu upp á tæpar þrjár milljónir fyrir vangoldnum launum.

Meiri en helmingur gefur hótelinu eina stjörnu

Stundin greindi einnig frá því fyrir helgi að rekstrarleyfi hótelsins hefði verið falið á bak við vínflöskur, og útrunnið fyrir rúmum þremur árum í þokkabót, þegar eftirlitsfulltrúar VR og Eflingar mættu á vettvang á þriðjudaginn í síðustu viku. Greinir Stundin jafnframt frá því að til leigu höfðu verið mun fleiri herbergi en leyfilegt var og að starfsmaður af austurevrópskum uppruna hafi sagt að hún borgaði Ragnari 80.000 krónur á mánuði í leigu fyrir herbergi í íbúð hans.

Í maí gerði svo Íslandsbanki kröfu um að húsnæði Hótel Adam, sem er einnig í eigu Ragnars Guðmundssonar, yrði selt á nauðungarsölu. Var um 25 milljón króna krafa á hvert og eitt hinna sex fasteignanúmera sem eru á húsnæðinu við Skólavörðustíg 42.

Gestir á hótelinu eru heldur ekki alls kostar sáttir, en 51 prósent umsagnanna við hótelið á vefnum Trip Advisor er upp á eina stjörnu. Er hótelið með tvær stjörnur í heildina litið, eftir 127 umsagnir. „Þetta hóteli ætti ekki að vera opið,“ segir í einni umsögn.