Tyrkir héldu á­fram inn­rás og loft­á­rásum á land­svæði Kúrda í Sýr­landi í dag. Fregnir hafa borist af hörðum á­tökum á svæðinu. Sjö al­mennir borgarar hafi fallið í átökunum sam­kvæmt upp­lýsingum frá Rauða krossinum sem starfar á svæðinu.

Á­rásin hófst eftir að for­seti Banda­ríkjanna á­kvað að draga til baka her­lið sitt frá svæðinu. Tyrkir hafa lýst því yfir að þau vilji skapa „örugg svæði“ við landa­mærin fyrir fjölda sýr­lenskra flótta­manna á svæðinu.

Mike Pompeo, utan­ríkis­ráð­herra Banda­ríkjanna, greindi frá því í gær að Banda­ríkin hafi ekki gefið Tyrkjum „grænt ljós“ á á­rásina. Trump sagði þó á blaða­manna­fundi að Tyrkir og Kúrdar hafi barist um ára­bil og að Kúrdar hafi ekki að­stoðað í seinni heims­styrj­öldinni í Normandí.

Bæði Repúblikanar og Demó­kratar í Banda­ríkjunum hafa for­dæmt á­rásina. Einnig hafa ýmis lönd Evrópu­sam­bandsins gert það og Sádi Arabía og Egypta­land. Greint er frá á BBC.

For­seti Tyrk­lands brást harka­lega við þeirri gagn­rýni á tyrk­neska þinginu í dag og sagði þá sem mót­mæla inn­rásinni „ekki heiðar­lega“. Hann hótaði að hleypa sýr­lenskum flótta­mönnum, sem dvelja í Tyrk­landi, inn í Evrópu ef að Evrópu­sam­bands­löndin lýsi inn­rásinni sem her­námi.

Á­rásin er sögð að mestu eiga sér stað á milli bæjanna Ras al-Ain og Tal-Abyad við mið landa­mæri Sýr­lands við Tyrk­land. Svæðið er strjál­býlt. Aðal­lega Arabar búa á svæðinu. Tug­þúsundir íbúa hafa neyðst til að flýja heimili sín. Engar stað­festar tölur hafa þó verið gefnar út.

Öryggis­ráð Sam­einuðu þjóðanna heldur neyðar­fund um inn­rásina í dag.

Þór­hildur Sunna Ævars­dóttir, þing­kona Pírata, kallaði eftir því að ríkis­stjórnin for­dæmi á­rásina í gær.

Ríkis­stjórnin fundar um málið í dag, en þing­flokkur Vinstri-hreyfingarinnar græns fram­boðs for­dæmdi á­rásina í yfir­lýsingu í gær. Þau í­treka mikil­vægi frið­sam­legrar upp­byggingar og hvetja ríkis­stjórnina til að „beita sér í hví­vetna gegn á­fram­haldandi stríðs­á­tökum í Sýr­landi sem mun á­vallt bitna mest á börnum og konum og tala á­vallt fyrir frið­sam­legri upp­byggingu Sýr­lands með að­komu fjöl­þjóð­legra stofnanna.“

Rósa Björk Brynjólfs­dóttir, þing­kona VG, sagði á Face­book-síðu sinni í gær að hún hafi óskað eftir því að flokka­hópur vinstri­fólks í Evrópu­ráðinu hafi, að hennar beiðni, brugðist við inn­rásinni með því að senda bréf á utan­ríkis­ráð­herra Tyrk­lands þar sem inn­rásinni er harð­lega mót­mælt og fram­kvæmda­stjóri Evrópu­ráðsins er hvött til að taka málið upp og mót­mæla við tyrk­nesk stjórn­völd.

Greint var frá því íá Guardian að fjöldi starfs­manna hjálpar­sam­taka hafi flúið frá Sýr­landi yfir til Tyrk­lands. UNICEF á Ís­landi hefur lýst yfir þungum á­hyggjur vegna inn­rásarinnar.