Ríkis­stjórn Banda­ríkjanna hefur hætt að veita neyðar­að­stoð til El Salvador, Gvate­mala og Hondúras. For­seti Banda­ríkjanna, Donald Trump, reiddist ríkis­stjórnum ríkjanna fyrir að senda flótta­menn til Banda­ríkjanna og hótaði að loka landa­mærum Banda­ríkjanna og Mexíkó alveg.

Yfir­völd í Mexíkó hafa gert minna úr yfir­lýsingu um lokun landa­mæranna. Utan­ríkis­ráð­herra Mexíkó, Marcelo Ebrard, segir þau vera góða ná­granna og bregðist ekki við slíkum hótunum. Ríkis­stjórn El Salvador hefur sagt að þau hafi reynt að stemma stigu við flæði flótta­manna til Banda­ríkjanna. Ríkis­stjórn Hondúras sagði að sam­band sitt við Banda­ríkin væri enn gott, en að stefna þeirra væri mót­sagna­kennd.

Trump til­kynnti að hann vildi hætta neyðar­að­stoðinni vegna aukins fjölda hælis­leit­enda sem hefur sótt um hæli í Banda­ríkjunum síðustu daga. Á föstu­daginn sakaði Trump ríkin um að setja saman flótta­manna­bíla [e. Migrant caravan] og senda þá norður.

Trump sagði það því „mjög lík­legt“ að hann myndi loka landa­mærunum ef að yfir­völd í Mexíkó myndu ekki bregðast við og stöðva flótta­mennina áður en þau kæmu til Banda­ríkjanna.

Við landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna. Aukinn fjöldi hælisleitenda eru börn og fjölskyldur. Myndin er úr safni.

Mun hafa gífurleg áhrif

Tals­verður fjöldi þarf reglu­lega að fara yfir landa­mærin, til að vinna eða fara í skóla, og myndi því slík lokun hafa gífur­leg á­hrif. Í frétt Reu­ters um málið segir að fólk hafi nú þegar miklar á­hyggjur af stöðunni.

Lokun landa­mæranna myndi einnig hafa mikil á­hrif á ferða­manna­iðnaðinn í bæði Banda­ríkjunum og Mexíkó, á­góði síðasta árs var í heild um 612 milljarðar. Þá gæti slík lokun einnig haft á­hrif á annan iðnað og gæti or­sakað lokanir verk­smiðja, báðum megin landa­mæranna.

Tals­maður utan­ríkis­ráðu­neytis Banda­ríkjanna sagði í yfir­lýsingu að þau myndu fram­fylgja skipunum Trump um að hætta neyðar­að­stoð og myndi næst hefja sam­tal við þingið, því sam­þykki þess þarf til að hætta neyðar­að­stoðinni. Að­stoðin er um 700 milljónir dollara sam­tals.

Öldunga­deildar­þing­maðurinn Bob Men­endez, situr fyrir hönd Demó­krata í utan­ríkis­mála­nefnd. Hann sagði á­kvörðunina „kæru­lausa“ og hvatti bæði Demó­krata og Repúblikana á þingi til að hafna því að sam­þykkja.

Greint var frá því síðasta þriðju­dag að varnar­mála­ráðu­neyti Banda­ríkjanna hafi veitt heimild fyrir því að verk­fræðingar hersins fái milljarð Banda­ríkja­dala, eða jafn­gildi 121 milljarðs ís­lenskra króna, til að byggja múr á landa­mærum Mexíkó.

BBC greinir frá þessu. Peningarnir eru veittir á grund­velli neyðar­á­stands sem Trump hefur lýst yfir í Banda­ríkjunum. Um er að ræða fyrstu fjár­veitingu úr sjóðum ríkisins vegna neyðar­á­stands.

Mestur fjöldi hælisleitenda í áratug

Landa­mæra­verðir í Banda­ríkjunum segja að mikil aukning hafi verið á árinu á fjölda hælis­leit­enda. Mörg þeirra séu börn og fjöl­skyldur sem hafi flúið of­beldi og erfiði í löndunum þremur. Að­eins í mars er búið að hand­taka um 100 þúsund hælis­leit­endur sem mestur fjöldi sem hand­tekinn hefur verið við landa­mærin í ára­tug. Flestir þessara ein­stak­linga mega vera á­fram í Banda­ríkjunum á meðan mál þeirra fær efnis­lega með­ferð, sem getur tekið mörg ár vegna tafa í dóms­kerfinu.