For­seti Filipps­eyja, Rodrigo Duterte, hefur hótað lands­mönnum fangelsis­vist ef þau kjósa að af­þakka bólu­setningu gegn Co­vid-19. „Ykkar er valið, bólu­setning eða ég læt hand­taka ykkur,“ sagði Duterte í sjón­varps­á­varpi í gær.

Á­varpið kom í kjöl­far þess að fáir létu sjá sig í bólu­setningu fyrr um daginn. Hótanir Duterte eru þó þvert á fyrir­mæli heil­brigðis­yfir­valda í landinu, sem hafa hvatt fólk til að mæta í bólu­setningu en þó tekið skýrt fram að það sé val­kvætt að fá sprautuna.

Þolin­mæðin á þrotum

Dræm mæting í bólu­setninguna virðist þó hafa farið veru­lega fyrir brjóstið á for­setanum sem kvaðst vera við það að missa þolin­mæðina á þjóðinni.

„Ef þú sam­þykkir ekki bólu­setningu, farðu þá frá Filipps­eyjum. Farðu til Ind­lands eða Banda­ríkjanna,“ í­trekaði Duterte. Því næst hét for­setinn því að hann myndi fá sveitar­stjóra landsins til að út­búa lista yfir þá íbúa sem ekki hygðust láta bólu­setja sig.

„Ekki mis­skilja mig, það er neyðar­á­stand í landinu,“ út­skýrði Duterte og biðlaði til lands­manna að fara eftir fyrir­mælum stjórn­valda.

Á­standið á Filipps­eyjum vegna far­aldursins er með því versta í Asíu. Nú þegar hafa yfir 1.3 milljón manns greinst með kórónu­veiruna í landinu og 23 þúsund látið lífið af völdum Co­vid-19.

Bólu­setning hefur farið hægt af stað en búið er að bólu­setja 2,1 milljón manna. Mark­mið stjórn­valda er að bólu­setja 70 milljónir af þeim 110 sem búa í landinu. Enn er því langt í land.