Landsréttur staðfesti í gær úrskurð héraðsdóms um nálgunarbann og brottvísun manns af heimili sínu.

Maðurinn skaut málinu til Landsréttar 11. febrúar eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra um að maðurinn skyldi sæta brottvísun í fjórar vikur af heimili sínu í Reykjavík og sæta nálgunarbanni gagnvart fjölskyldu sinni í sex mánuði.

Eiginkona mannsins hringdi í lögreglu 28. janúar síðastliðinn í miklu uppnámi eftir að hann hótaði að drepa hana. „Hafi hún verið í miklu uppnámi og grét og titraði í víxl. Kvaðst hún hafa farið fram á skilnað við kæra,“ er haft eftir greinargerð lögreglunnar í úrskurði héraðsdóms. Kemur einnig fram að maðurinn hafi grunað konu sína um framhjáhald.

„Brotaþoli kvað kærða hafa sagt við sig „að hann ætlaði að stúta henni“ og í kjölfarið hafi sonur þeirra flúið af heimilinu þar sem hann óttaðist kærða.“

Hellti kaffi yfir hana

Dóttir konunnar var einnig á staðnum en hún staðfesti framburð móður sinnar um að maðurinn hefði haft í hótunum og verið með ógnandi hegðun. Hún sagði manninn hafa áður ráðist á móður sína, meðal annars með því að hella yfir hana kaffi.

Maðurinn neitaði sök og sakaði eiginkonu sína um ærumeiðingar. Lögreglan segir alveg ljóst að konan sé hrædd við manninn sinn og að hann sé líklegur til að hóta henni áfram og jafnvel beita hana ofbeldi sé hann látinn afskiptalaus.

Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að maðurinn megi ekki koma innan við 50 metra radíus umhverfis heimilið og má ekki nálgast fjölskylda sína á almannafæri eða setja sig í samband við þau með öðrum hætti.