Andri Leó Teitsson var í Héraðsdómi Norðurlands Eystra í gær dæmdur í níu mánaða fangelsi fyrir hótanir gegn ljósmæðrum á Sjúkrahúsinu á Akureyri og fyrir að hafa unnið skemmdarverk á fæðingardeildinni. Hann játaði brot sín sem framin voru 21. mars í fyrra.

Honum var gefið að sök að hafa brotist inn á sjúkrahúsið, brotið glugga og eyðilagt hluti sem urðu í vegi hans. Þá hafi hann hótað ljósmæðrum sem voru við störf á fæðingardeild og sagt að hann myndi sprauta þær með HIV smitaðri nál ef þær létu hann ekki hafa morfín úr lyfjabirgðum sjúkrahússins.

Andri Leó játaði sök sína í skýrslutöku lögreglu og fyrir dómi og var dæmdur í níu mánaða fangelsi með möguleika á sex mánaða skilorði. Hann mun einnig greiða þóknun verjanda síns sem nemur hálfa milljón.

Fór á meðferðarheimili

Fyrir liggur vottorð um að Andri Leó hafi farið á meðferðarheimili viku eftir að brotið var framið þar sem hann dvaldi í tæpa fimm mánuði. Í dómnum kemur fram að hann hafi unnið mjög vel og lagt sig allan fram á meðferðarstofnuninni.

Þrátt fyrir að Andri Leó hafi verið illa áttaður þegar brotið átti sér stað er litið til þess að brotið var framið þar sem ljósmæður voru að störfum og telst það mjög alvarlegt. Brotið olli ótta á stað þar sem mikilvægt er að ríki kyrrð og öryggi og í kjölfar þess var refsing níu mánaða fangelsi.