Meintur upplýsingagjafi fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, var handtekinn í morgun, ásamt tveimur öðrum mönnum í tengslum við rannsókn lögreglu á morðinu í Rauðagerði um helgina.

Mannsins hefur verið leitað undanfarna daga vegna rannsóknarinnar en hann var handtekinn í nágrenni Selfoss í morgun ásamt tveimur útlendum mönnum.

Fjórir í haldi

Fjórir eru nú í haldi vegna málsins, einn Íslendingur og þrír menn af erlendu bergi.

Eins og Fréttablaðið greindi frá var á annað hundrað síðum úr við­kvæmri rann­sókn Héraðs­sak­sóknara á meintri spillingu innan fíkni­efna­lög­reglunnar lekið til fjöl­miðla snemma í síðasta mánuði.

Gögnin inni­halda meðal annars frá­sagnir fjöl­margra lög­reglu­manna, um vinnu­andann innan deildarinnar og þann grun sumra lög­reglu­manna að einhverjir samstarfsmanna þeirra þægju mútur frá nafngreindum undirheimamanni.

Meðal þeirra gagna sem lekið var er skýrsla sem tekin er af umræddum manni. Hann hefur nú verið handtekinn í tengslum við morðrannsóknina eins og áður sagði.

Meint kjaftatík aflaði sér verndar eftir lekann

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur maðurinn átt um sárt að binda síðan gögnunum var lekið en kollegum hans í undirheiminum er eðlilega illa við þá sem veita lögreglu upplýsingar. Hefur hann haft hóp útlendra manna í kring um sig, sér til verndar, undanfarnar vikur. Þeirra á meðal var litháískur maður, búsettur á Spáni, sem setið hefur í gæsluvarðhaldi vegna morðsins. Hann var handtekinn í íbúð Íslendingsins aðfaranótt sunnudags.

Tjónið af lekanum verði aldrei bætt

Fréttablaðið hefur undir höndum skilaboð milli mannsins sem handtekinn var í morgun og manns sem hann grunar um að hafa lekið gögnunum. Af þeim er ljóst að hinn meinti upplýsingagjafi lögreglu hugsar fyrrverandi vini sínum þegjandi þörfina vegna lekans. 

Í skilaboðunum, sem send voru um tveimur vikum fyrir morðið í Rauðagerði segist hinn meinti upplýsingagjafi lögreglu, hafa orðið fyrir óbætanlegu tjóni af völdum mannsins sem hann telur hafa lekið gögnunum. Honum sé því nauðugur sá kostur að gera honum illt.

Sendi mynd af Litháa með viðvörunarorðum

Hann sendi honum mynd af Litháa sem nú sætir gæsluvarðhaldi vegna morðsins í Rauðagerði. „gaur sem er ad bíða eftir ter.“ segir hann við fjandmann sinn og kennir litháíska manninn á myndinni við frönsku útlendingahersveitina.

Maðurinn sem lak fyrrnefndum gögnum á vefsíðuna bland.is í síðasta mánuði lét orðsendingu fylgja gögnunum. Þar segir hann meðal annars að maðurinn sem um ræði hafi lengi verið grunaður í undir­heimunum um að vera upplýsingaveita hjá lög­reglunni, hafi starfað beggja megin línunnar, svíkjandi vini sína til að bjarga sjálfum sér. Hann sé vel efnaður og hafi ný­lega selt eign á 330 milljónir. Gögnin hafi gengið manna á milli í undir­heimunum en enginn þorað að opin­bera þau af ótta við manninn.

Maðurinn sem skotinn var til bana í Rauðagerði rétt fyrir miðnætti á laugardagskvöld var frá Albaníu en hafði verið búsettur hér á landi í nokkur ár. Hann var giftur íslenskri konu og lætur einnig eftir sig ungt barn og annað ófætt.

Viðbúnaðarstig lögreglu hátt

Mikill þungi er í rannsókn málsins hjá lögreglunni. Hún er í höndum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra kemur einnig að henni.

Viðbúnaðarstig lögreglu er einnig hátt. Auk aðkomu sérsveitar að aðgerðum lögreglu í morgun voru minnst tveir sérsveitarbílar í fylgd lögreglu við Héraðsdóm Reykjavíkur á sunnudagskvöld, þegar gæsluvarðhaldsfanginn var leiddur fyrir dómara.

Fréttablaðið/Anton Brink