Að minnsta kosti 28 Palestínumenn, þar á meðal níu börn, létu lífið í loftárás Ísraelsmanna á Gasasvæðið í gær. Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hefur heitið enn harðari árásum.

Að sögn ísraelskra fjölmiðla var loftárásin svar hersins við árás Hamas-samtakanna á mánudagskvöld. Þá skutu samtökin um 250 loftskeytum yfir landamærin, þar á meðal á borgina Jerúsalem, en þetta er í fyrsta skipti sem samtökin hafa beint árásum gegn borginni í sjö ár.

Tvær ísraelskar konur létust

Tvær ísraelskar konur í borginni Ashkelon létust í árásinni og sex manns særðust þegar loftskeyti lenti á fjölbýlishúsi í Jerúsalem.

Mikil ólga hefur verið á svæðinu undanfarnar vikur. Í Palestínu braust út mikil reiðialda þegar hæstiréttur í Ísrael tók fyrir mál um hvort vísa skyldi palestínskum fjölskyldum á brott til að koma Ísraelum að.

Upp úr sauð í aðdraganda Jerúsalem-dagsins þar sem mikil átök brutust út á milli Palestínumanna og ísraelskra lögreglusveita. Þúsundir Palestínumanna höfðu byrgt sig inni í Al-Asqa moskunni þegar ísraelskir lögreglumenn brutust inn og beittu meðal annars gúmmíkúlum og táragasi til að ná fólki út.

Hundruð særðust í átökunum

Hundruð særðust í átökunum og hótuðu Hamas-samtökin aðgerðum ef lögreglusveitir yfirgæfu ekki svæðið í kringum moskuna sem er afar heilög í íslamstrú.

„Ísrael mun svara af miklum krafti,“ sagði Netanjahú í ræðu við ríkisathöfn á Jerúsalem-deginum. „Við munum ekki umbera árásir á yfirráðasvæði okkar, höfuðborg, borgara eða hermenn. Árásir á okkur munu reynast dýrkeyptar.“

Benny Gantz, varnarmálaráðherra Ísraels, hefur nú kallað út fimm þúsund manna varalið hersins til að bregðast við átökunum. Einnig hefur hermönnum verið fjölgað við landamærin. n