Repúklikanar hóta að lögsækja Joe Biden Bandaríkjaforseta vegna nýrrar forsetatilskipunar um bólusetningarskyldu og auknar prófanir.

Forsetinn kynnti í gær sex þrepa áætlun til að tækla heimsfaraldur Covid-19. Áætlunin snýst um að bólusetja þá sem hafa enn ekki verið bólusettir og auka prófanir með því að bjóða upp á gjaldfrjálsar prófanir. Opinberir starfsmenn og verktakar sem taka að sér verkefni fyrir hið opinbera verða skyldaðir til að bólusetja sig og fyrirtækjastjórnendur með 100 starfsmenn eða fleiri þurfa að setja skilyrði fyrir bólusetningu eða hafa vikulegar Covid-19 prófanir.

Aðgerðir forsetans féllu í grýttan farveg á hægri vængnum og hefur nú landsnefnd Repúblikanaflokksins hótað að lögsækja forsetann.

„Joe Biden lofaði Bandaríkjamönnum þegar hann var kjörinn forseti að hann myndi aldrei setja á bólusetningarskyldu. Hann laug,“ sagði Ronna McDaniel, formaður landsnefndarinnar.

Aðspurður um möguleika lögsókn sagði Biden: „Verði þeim að góðu.“