„Þetta er dauðans alvara en ekkert grín en það virðist vera að það séu margir að leika sér að hósta á annað fólk,“ segir Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, um atvik sem varð í Krónunni á Granda um kvöldmatarleytið á sunnudag.

Kona sem var að versla í Krónunni er drengirnir fóru þar hamförum segir þá hafa verið á að giska tólf eða þrettán ára. „Sá stærsti í hópnum gekk aftan að fólki, stoppaði eins nálægt því og hann komst og púaði svo eða hóstaði á það. Á meðan tók annar allt saman upp á síma,“ lýsir hún.

Reyndi að stöðva piltana

Þessi viðskiptavinur segir að kona ein hafi í rólegheitum reynt að stöðva piltana og bent þeim á að þetta væri ekki sniðugt. „En þeir slógu ekkert af hortugheitunum í svörum. Sá stóri nuddaði sér um augun, boraði í nefið og stakk fingrum upp í sig, gekk síðan að næstu hillu og strauk puttunum eftir vörunum þar. Þetta var frekar ógeðfelld sjón,“ segir hún.

Sjálf kveðst konan fyrst hafa orðið vör við drengjahópinn þegar hún hafi gengið fram hjá manni sem hafi í forundran spurt unglingsstrák með hettu upp fyrir haus hvort það væri ekki allt í lagi.

„Ég hélt fyrst að þarna væri maðurinn að tala við son sinn, sem eitthvað væri greinilega að,“ lýsir konan.

Hún hafi ekki kveikti ekki á perunni fyrr en pilturinn hreinlega púaði ofan í hálsmálið á henni. „Þegar ég sneri mér við stóð hann alveg upp við mig og starði ögrandi á mig. Þar sem ég sýndi engin viðbrögð elti hann mig eftir ganginum í tilraun til að ganga fram af mér.“

Vísað til lögreglu og almannavarna

Gréta framkvæmdastjóri segir að þegar vart verði við slíka hegðun sé hún tilkynnt til öryggisdeildar fyrirtækisins. Í þessu tilfelli hafi upptökur verið skoðaðar og þær sýni hvað gerst hafi. „Núna er öllum svona ábendingum vísað til lögreglu og almannavarna,“ segir hún. Drengirnir séu ekki velkomnir í Krónuna eftir þessa uppákomu.

„Þeir sem eru með dónaskap og sýna hvorki okkar fólki né viðskiptavinum virðingu eru vinsamlegast beðnir um að koma ekki aftur og beina viðskiptum sínum annað,“ undirstrikar framkvæmdastjórinn. Málið sé því miður ekki einsdæmi. „Það eru fleiri tilfelli þar sem viðskiptavinir eru að taka þessum tilmælum almannavarna um tveggja metra regluna af léttúð.“