Horn­firðingar segjast ekki ætla að una úr­skurði inn­viða­ráðu­neytisins um að sveitar­fé­lagið hafi ekki farið að lögum þegar lóðar­höfum einum við Haga­leiru var synjað um að fá gatna­gerðar­gjöld felld niður.

„Sveitar­fé­lagið fékk ekki upp­lýsingar um að kæra væri til um­fjöllunar í ráðu­neytinu og fékk ekki tæki­færi til að koma sínum sjónar­miðum á fram­færi,“ segir um málið í fundar­gerð bæjar­ráðs Horna­fjarðar. Ráðu­neytið hafi í tví­gang synjað sveitar­fé­laginu um endur­upp­töku málsins.

„Engar skýringar eða leiðir eru til að rekja það að kæra lá fyrir í ráðu­neytinu þar sem of langur tími var liðinn til að rekja tölvu­pósta,“ segir bæjar­ráðið. Eftir ítar­lega skoðun og sam­ráð við lög­fræðing og Sam­band ís­lenskra sveitar­fé­laga ætli bæjar­ráð ekki að una úr­skurði ráðu­neytisins. Því verði lóðar­höfunum synjað um endur­greiðslu gatna­gerðar­gjalda eins og áður hafi verið á­kveðið. Upp­hæðin sem um er að tefla mun nema tæpum þremur milljónum króna.

„Sveitar­fé­lagið Horna­fjörður viður­kennir ekki að fram­kvæmd þess hafi verið í trássi við jafn­ræðis­reglu, enda séu sterk rök fyrir því að svo sé ekki,“ segir bæjar­ráðið. Ekki hafi verið um mis­munun að ræða því þeir sem fengu frest á fram­kvæmdum hafa ekki verið að sækja um lóð eftir að reglur um tíma­bundinn af­slátt af gatna­gerðar­gjöldum runnu út. Úr­skurður ráðu­neytisins sé ekki bindandi fyrir sveitar­fé­lagið, sem að auki telji að máls­með­ferðin hafi verið haldin slíkum á­göllum að niður­stöðunni verði ekki unað. Sveitar­fé­lagið eigi ríka hags­muni í málinu.