Guðmundur Svavarsson hjá Reykjagarði horfir björtum augum til framtíðar þrátt fyrir að tveir veirusjúkdómar hafi greinst í kjúklingum á Rangárbúinu á Hólavöllum í Landsveit. Sjúk­dómarnir tveir reyndust vera út­breiddir í öllum fjórum húsum búsins, sem inni­halda tæp­lega fimm­tíu þúsund fugla saman­lagt. Mat­væla­stofnun setti því búið í ein­angrun. Um er að ræða veiru­sjúk­dómana Gubmoro-veiki og inn­lyksa lifrar­bólgu.

„Þetta eru vissulega vondar fréttir og alltaf slæmt þegar dýr veikjast af lífshættulegum sjúkdómum,“ segir Guðmundur í samtali við Fréttablaðið.

Grunur um smit­sjúk­dóm vaknaði eftir veikindi og aukin dauðs­föll á búinu í lok júlí. Þá til­kynnti Reykja­garður málið til Mat­væla­stofnunar sem setti flutnings­bann á búið og upp­lýsti aðila sem tengdust búinu og ali­fugla­bændur um málið.

„Sem betur fer smitast sjúkdómurinn ekki í menn og afurðir fullkomlega heilbrigðar til neyslu.“

Engin sýklalyf í íslenskt kjúklingakjöt

„Sem betur fer er þessi ófögnuður einangraður við eitt bú og því tækifæri til að bregðast til varna með það að markmiðið að koma í veg fyrir að hann verði landlægur,“ segir Guðmundur en Rangárbú vinnur málið alfarið með MAST. Hann segir að dýravelferð sé í forgangi.

„Þar ráða sjónarmið um dýravelferð og að tryggja áfram góða sjúkdómastöðu í alifuglaeldi á Íslandi. Ísland hefur sérstöðu hvað sjúkdómastöðu varðar og íslenskt kjúklingakjöt framleitt án sýklalyfjagjafar. Þannig viljum við hafa það áfram.“

Hann segir að atvikið hafi vissulega tímabundin áhrif á starfsemina og starfsmennina, en að hann horfi björtum augum til framtíðar og trúi að ætlunarverk þeirra takist.

„Sem betur fer smitast sjúkdómurinn ekki í menn og afurðir fullkomlega heilbrigðar til neyslu.“

Kjúklingunum er slátrað undir eftirliti Matvælastofnunar pg eru næstu skref hjá Rangárbúi að þrífa allt út og sótthreinsa. Síðan munu húsin standa auð í ákveðinn tíma áður en fuglar fara inn í húsin að nýju.