„Ef þú hefðir spurt mig í vor þá hefði ég líklega sagst vera að hætta. En ég ákvað að bíða með slíkar ákvarðanir,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í ítarlegu viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins. „Skotárásin við heimili okkar Örnu fékk mikið á okkur. Mín ósjálfráðu viðbrögð voru þá; ég er hættur, þarna eru mörkin. Ég get ekki boðið fólkinu mínu upp á þetta. Hér verð ég að draga línu í sandinn,“ og hann segir að þótt hann hafi fyrir löngu verið búinn að venjast pólitískri hörku og óbilgirni og jafnvel verið farinn að sætta sig við hversdagslegar svívirðingar þá hafi þetta verið eitthvað allt annað.

Þú bognaðir?

„Í byrjun var þetta fyrst og fremst áfall. Þegar á leið fann ég hvað þetta varpaði miklum skugga yfir svo margt. Já, þetta sat í mér og lagðist á mig eins og mara,“ og hann horfir yfir að skrifborðinu, virðir myndina með einkunnarorðum Gísla fyrir sér, en segir svo rólega frá því að þegar hann horfi til baka átti hann sig betur á hvað árásin hafi hvílt þungt og lengi á heimilinu: „Þetta tók meira á mig og mína en ég þorði að viðurkenna á meðan að málið reis hvað hæst í vor. Og skugginn af því fylgdi okkur inn í sumarið.“

Sat hræðslan heima fyrir lengi í þér?

„Hræðsla er kannski ekki rétta orðið. Ég stóð hins vegar sjálfan mig að því að horfa öðruvísi út um gluggann á heimilinu en ég hafði áður gert. Ég upplifði ákveðið varnarleysi. Það er óhuggulegt í alla staði að vera hræddur heima hjá sér.“

Hann segir að þessi lífreynsla hafi verið mikil viðbrigði því hann eins og aðrir hafi trúað á gott og friðsamt samfélag. Aðalsmerki þess að búa í Reykjavík eigi að vera það að fólk geti umgengist og átt samtöl eins og jafningjar: „Ég elska að ganga um götur og heilsa upp á fólk eða fara í heita pottinn til að ræða málin og þannig samfélagi viljum við einmitt byggja, tala hvert við annað í augnhæð, en hinn kosturinn hefur bara verið svo fráleitur, að finna ekki til öryggis á meðal fólks.“

Viðtalið birtist í heild sinni í helgarblaði Fréttablaðsins.