Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Sunnudagur 12. mars 2023
09.00 GMT

Fjölmargir Íslendingar verða framlágir á mánudag eftir að hafa vakað fram eftir yfir Óskarsverðlaunaathöfninni sem hefst á miðnætti á sunnudagskvöld að íslenskum tíma.

Dröfn Ösp Snorradóttir-Rozas þekkir þá tilfinningu vel enda hefur hún fylgst með beinni útsendingu í áratugi og mætti alltaf ósofin í skóla eða vinnu þegar hún bjó heima á Íslandi.

„Það er auðvitað alveg omvendt núna því ég bý í Los Angeles. En þegar ég bjó heima var ég meira að vinna með einfarann um hánótt, að pukrast með að vekja ekki mömmu og pabba og horfði ein ýmist hlæjandi eða skælandi yfir þakkarræðum og dramatískum augnablikum.

En eftir að ég flutti til Los Angeles er þetta um miðjan dag, útsending byrjar um klukkan tvö, þrjú um dag með upphitunarþáttum um hvað sé að gerast á rauða og hvaða tilnefningar eru að fara að taka hvað og alls skyns spekúlasjónum.“


„En þegar ég bjó heima var ég meira að vinna með einfarann um hánótt, að pukrast með að vekja ekki mömmu og pabba og horfði ein ýmist hlæjandi eða skælandi yfir þakkarræðum og dramatískum augnablikum."


Þau hörðustu mæta uppáklædd

Dröfn segir algengt að fólk haldi veislur og fylgist saman með útsendingunni.

„Við hörðustu mætum uppáklædd með kampavín og fólk hendir í veitingar og bilaðan stemmara. En í ár sem og í fyrra verð ég í kjallaranum heima hjá mér lokuð af að lýsa honum beint fyrir Stöð 2 frá upphafi til enda þannig að ég verð með áhorfendum og það er svo sannarlega draumur að rætast hjá mér,“ segir hún kát.

„Kampavín, blíní og kavíar og ærandi stemming er yfirleitt það sem ég er að vinna með en í ár bara sódavatn og hljóðlátt snarl til að vera ekki smjattandi í eyru áhorfenda.“


„Kampavín, blíní og kavíar og ærandi stemming er yfirleitt það sem ég er að vinna með en í ár bara sódavatn og hljóðlátt snarl til að vera ekki smjattandi í eyru áhorfenda.“


Dröfn hér með raunverulega Óskarsstyttu sem Marketa Irglova hlaut fyrir lagið Falling slowly úr myndinni Once frá árinu 2007. Mynd/aðsend

Búin að sjá allar nema tvær

Aðspurð hvaða kvikmyndum hún spái velgengni í ár stendur ekki á svörum.

„Everything Everywhere all at once er gríðarlega sigurstrangleg og ef við dæmum út frá velgengni hennar á undangengnum hátíðum er nokkuð ljóst að hún sé að fara að sópa að sér styttum.“

Dröfn hefur verið dugleg að horfa á þær myndir sem tilnefndar eru.

„Sumar myndirnar eru varla komnar út og stundum svoldið snúið að ná að sjá þær þó ég fái svokallaða „screener-a“ eða DVD með myndunum frá Art directors guild verkalýðsfélaginu.“

Þegar við náum tali af Dröfn á hún enn eftir að sjá Women Talking og Avatar 2 en útilokar þó ekki að ná því fyrir stóru stundina.

Spennt vegna tilnefningar Söru

„Fyrir okkur Íslendingana er það auðvitað mál málanna að hún Sara Gunnarsdóttir er tilnefnd fyrir stuttteiknimyndina My year of Dicks sem hún leikstýrði og við erum auðvitað að rifna úr stolti og spennu með þennan flokk.

Hin stóra fréttin er að Top Gun: Maverick er tilnefnd sem besta kvikmynd en það er sjaldgæft að svona stór Hollywood-slummu-mynd sem var algjört "blockbuster hitt" og tekjuhá sé tilnefnd og þetta yrði í fyrsta sinn sem Tom Cruise fær Óskar. En hann var áður tilnefndur fyrir Magnolia og Jerry Maguire. Rihönnu er líka spáð sigri fyrir besta lag fyrir "Lift me up" úr Black Panther: Wakanda Forever og ég held að það verði málið."


„Fyrir okkur Íslendingana er það auðvitað mál málanna að hún Sara Gunnarsdóttir er tilnefnd fyrir stuttteiknimyndina My year of Dicks sem hún leikstýrði og við erum auðvitað að rifna úr stolti og spennu með þennan flokk."


Það er ekki hægt að sleppa sérfræðingnum án þess að biðja hana að spá hvaða leikari og leikkona hljóti Óskarinn fyrir aðalhlutverk þetta árið.

„Ég ætla að skjóta á að Michelle Yeoh taki Óskarinn fyrir Every­thing, Everywhere all at once. Svo held ég að ég taki bara smá áhættu og segi að Austin Butler sé að taka styttuna fyrir Elvis þó að bæði Bill Nighy og Colin Farrell eigi hug minn allan fyrir sinn leik.“

Athugasemdir