Jódís Skúladóttir lýsti í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 að maður sem hafi misnotað yfirburðarstöðu sína gagnvart henni þegar hún var 17 ára gömul og hann þrítugur, hafi tekið á móti henni í meðferð á Staðarfelli þremur árum seinna.

Í yfirlýsingu sem Hörður sendi frá sér í dag segir hann að skömmu eftir atvikið hafi hann sjálfur farið í meðferð og hafi hafið störf hjá SÁÁ stuttu síðar. Þremur árum síðar hafi Jódís farið í eftirmeðferð á Staðarfelli.

Hann segist í fréttatilkynningu ekki rengja frásögn Jódísar á nokkurn hátt og biður hana afsökunar á því sem gerðist og þeim afleiðingum sem atvikið hafði fyrir hana. Hann sagðist einnig vera í samtali við yfirmenn hjá SÁÁ um framtíð hans hjá stofnuninni og óskað eftir úttekt á störfum hans þar síðustu 25 árin.