Hörður Ás­kels­son hefur látið af störfum sem organ­isti og kantor við Hall­gríms­kirkju eftir tæp­lega 39 ára starf. Hörður hefur þar stjórnað tveimur kórum, Mótettukór Hallgrímskirkju og Schola cantorum, og byggt upp mikið tón­listar­starf sem list­rænn stjórnandi List­vina­fé­lags Hall­gríms­kirkju. Tölu­vert hefur verið fjallað um brott­hvarf Harðar og kóranna frá Hall­gríms­kirkju og fjöl­margir nú­verandi og fyrr­verandi kór­með­limir hafa lýst yfir von­brigðum sínum með á­kvörðun sóknar­nefndarinnar um að gera starfs­loka­samning eftir fjögurra ára­tuga far­sælt sam­starf.

„Á­stæðurnar eru upp­safnaður mót­byr sem ég og List­vina­fé­lag Hall­gríms­kirkju höfum orðið fyrir undan­farin ár. List­vina­fé­lagið var stofnað til að efla lista­líf í Hall­gríms­kirkju þegar ég byrjaði þar árið 1982 og hefur verið gríðar­lega sterkur bak­hjarl að öllu því lista­starfi sem hefur farið fram í kirkjunni,“ segir Hörður.

Mótettu­kórinn hefur þegar gefið út yfir­lýsingu þess efnis að kórinn hyggist fylgja Herði úr kirkjunni og hið sama má segja um Schola cantorum. Ljóst er að brott­hvarf kóranna tveggja mun skilja eftir sig stórt skarð í tón­listar­lífi Hall­gríms­kirkju en for­maður sóknar­nefndarinnar, Einar Karl Haralds­son, sagði frá því í við­tali við Frétta­blaðið að organ­istinn Björn Steinar Sól­bergs­son muni taka við keflinu af Herði Ás­kels­syni um upp­byggingu tón­listar­starfs innan kirkjunnar.

Á­stæðurnar eru upp­safnaður mót­byr sem ég og List­vina­fé­lag Hall­gríms­kirkju höfum orðið fyrir undan­farin ár.

Sam­starfið við sóknar­nefndina yfir­leitt gengið vel

List­vina­fé­lag Hall­gríms­kirkju var stofnað árið 1982 til að efla lista­líf Hall­gríms­kirkju. Fé­lagið hefur að mestu starfað sjálf­stætt óháð sóknar­nefnd Hall­gríms­kirkju en Hörður segir að rík á­hersla hafi ætíð verið lögð á að vinna náið með stjórn­endum kirkjunnar að skipu­lagningu lista- og tón­listar­starfsins.

„Í lögum List­vina­fé­lagsins, ein­mitt til þess að allt fari nú fram í vin­skap, þá voru for­maður safnaðarins og prestar og fram­kvæmda­stjóri kirkjunnar boðaðir á alla fundi sem haldnir voru í stjórn fé­lagsins, allt þar til sóknar­nefndin sagði fyrir­vara­laust upp samningi sínum við List­vina­fé­lagið í júní á síðasta ári. Til þess að upp­lýsinga­flæðið væri eðli­legt og til þess að hægt væri að stoppa hug­myndir sem væru kannski of villtar að mati yfir­stjórnarinnar var það stefna okkar að vera með allt á hreinu hvað varðar sam­skipti við yfir­menn,“ segir Hörður.

Hann segir sam­starf Lista­vina­fé­lagsins og sóknar­nefndarinnar hafa gengið greið­lega fyrir sig lang­stærstan hluta starfs­ferils síns. Þegar gerð var fram­tíðar­stefnu­mótun fyrir Hall­gríms­kirkju fyrir nokkrum árum hafi bæði sóknar­nefnd og starfs­fólk kirkjunnar verið sam­mála um að það sem stæði upp úr varðandi í­mynd Hall­gríms­kirkju væri ­listastarfið.

„Það voru allir sam­mála um það þá að þetta væri það sem mestu máli skipti. En ég hef líka alltaf verið mikill messu­maður, ég hef alltaf elskað að spila við messur. Ég tala nú ekki um á stóra orgelið sem að ég var svo lán­samur að fá að stýra vali á á sínum tíma,“ segir Hörður.

Hörður Áskelsson stýrir tónleikum í Hallgrímskirkju árið 2019.
Fréttablaðið/Anton Brink

Ein­angraður sem list­rænn stjórnandi

Hörður segir að hugsan­lega hafi starf­semi List­vina­fé­lagsins verið orðin of um­fangs­mikil að mati ráða­fólks í kirkjunni, það hafi verið gefið í skyn að tíðir list­við­burðir kölluðu á of mikla notkun á hús­næðinu og væru fyrir annarri starf­semi. Þó hafi það varla verið rætt við hann.

„Ég hef það á til­finningunni að þessi mót­byr síðustu ára hafi stafað af því að yfir­mönnum hafi fundist lista­lífið orðið of fyrir­ferðar­mikið og að nú væri tími til kominn að draga saman seglin. Ég hef aldrei verið á móti breytingum en mér finnst að breytingar þurfi að gera í sam­tali. Í Hall­gríms­kirkju upp­lifði ég síðustu árin að það full­komna traust for­ráða­manna Hall­gríms­safnaðar til for­ystu minnar sem list­ræns stjórnanda kirkjunnar, sem ríkt hafði um ára­tuga skeið, hafi farið þverrandi. Frá sumrinu 2018 var ég úti­lokaður frá öllum fundum hjá fram­kvæmda­nefnd Hall­gríms­kirkju og síðar einnig fundum sóknar­nefndar kirkjunnar“ segir Hörður.

Þetta hafi farið gegn starfs­reglum þjóð­kirkjunnar en sam­kvæmt þeim er skylda að boða list­rænan stjórnanda og organ­ista kirkjunnar á fundi þegar rætt er um tón­listar­leg mál­efni. Á síðustu metrunum hafi verið lítið sem ekkert sam­tal á milli Harðar og stjórn­enda kirkjunnar. Þegar sóknar­nefndin sagði svo upp samningi við List­vina­fé­lagið sl. sumar eftir að aðal­fundur List­vina­fé­lagsins hafði sent frá sér á­lyktanir til sóknar­nefndar um bætt sam­skipti við Hörð og um á­fram­haldandi stuðning við List­vina­fé­lagið, var það gert án sam­tals.

„Það bara kom til­kynning um að núna væri sóknar­nefndin búin að segja upp sam­starfs­samningi við List­vina­fé­lagið sem var með á­kveðinn fastan styrk til starf­seminnar frá kirkjunni. Þetta sam­tal hefur aldrei verið al­menni­lega tekið,“ segir Hörður.

Þessi samningur féll mér ekki í geð. Það verður að segjast eins og er að mér fannst þetta bara vera svo­lítið spark í rassinn, þú ert orðinn gamall og átt að hætta. Það er til­finningin.

Enginn heiður fólginn í heiðurs­samningi

Einar Karl Haralds­son, for­maður sóknar­nefndar Hall­gríms­kirkju, birti færslu á Face­book-síðu Hall­gríms­kirkju síðast­liðinn sunnu­dag þar sem hann lýsir af­stöðu sóknar­nefndarinnar gagn­vart starfs­lokum Harðar. Einar segir Hörð hafa óskað eftir starfs­loka­samningi, eftir að hann hafnaði svo­kölluðum „Heiðurs­samningi Hall­gríms­kirkju“ sem honum var boðinn í lok mars síðast­liðnum. Hörður segir að honum hafi ekki litist á samninginn, sem gerði ráð fyrir því að hann fengi tveggja ára laun í sam­ræmi við Heiðurs­laun lista­manna frá Al­þingi og myndi halda þrenna tón­leika í Hall­gríms­kirkju á tveimur árum en ætti ekki lengur að sinna neinum störfum fyrir Hall­gríms­kirkju, hvorki við helgi­hald né list­ræna stjórnun. Hann hafi ráð­fært sig við ýmsa aðila sem hafi verið sam­mála honum að í samningnum væri enginn heiður fólginn heldur væri hann fyrst og fremst gerður í þeim til­gangi að koma Herði úr starfi.

„Þessi samningur féll mér ekki í geð. Það verður að segjast eins og er að mér fannst þetta bara vera svo­lítið spark í rassinn, þú ert orðinn gamall og átt að hætta. Það er til­finningin. Ég ráð­færði mig við fólk sem var sam­mála um að það væri enginn heiður að þessu,“ segir Hörður og bendir meðal annars á að í samningnum hafi ekki verið neinn skilningur á því að hann þyrfti að fá að­stöðu til að æfa kórana á milli tón­leika.

Undan­farna níu mánuði hefur Hörður verið á starfs­launum lista­manna til að sinna verk­efnum með Schola cantorum. Flestum þeim verk­efnum hefur þurft að fresta vegna að­stæðna í sam­fé­laginu en Hörður segir þau verk­efni enn vera í far­vegi. Í kjöl­far boðs um heiðurs­samning hafi hann lagt fram til­lögu þess efnis að hann myndi gegna 75 prósent starfi í Hall­gríms­kirkju næstu tvö og hálfu árin fram að sjö­tugs­af­mæli sínu þar sem hann myndi stýra List­vina­fé­laginu á­fram, kórunum tveimur og spila við ein­hvern til­tekinn fjölda messa á hverju ári.

„En þessu til­boði var ekkert svarað, og kom þá þessi starfs­loka­samningur sem ég svo undir­ritaði því ég sá enga aðra leið. Það er mín upp­lifun að mér hafi verið vikið frá störfum, þar sem greini­legt var að starfa minna við kirkjuna var ekki lengur óskað og ég á allan stuðning kóranna minna sem skilja þetta á sama hátt,“ segir Hörður.

Frá tónleikum Schola cantorum í Hallgrímskirkju árið 2018.
Fréttablaðið/Stefán

Ég á náttúr­lega enga ósk heitari fyrir Hall­gríms­kirkju, sem er alveg frá­bær staður fyrir kirkju­tón­list og enginn sam­bæri­legur staður á Ís­landi, en að þar verði blóm­legt líf á­fram.

Hefur engan á­huga á því að fara í hart

Þrátt fyrir að Hörður hafi séð engan annan kost í stöðunni en að víkja úr starfi tekur hann skýrt fram að það sem hann vilji leggja mesta á­herslu á í þessu sam­hengi sé tón­listar­starfið sem hann hefur átt þátt í að byggja upp í Hall­gríms­kirkju undan­farna fjóra ára­tugi.

„Eins og ég hef reynt að koma að í við­tölum, þá vil ég helst eiga bara minningarnar um þennan góða og frá­bæra tíma sem ég átti lengst af og hann tekur enginn frá okkur. Ég á náttúr­lega enga ósk heitari fyrir Hall­gríms­kirkju, sem er alveg frá­bær staður fyrir kirkju­tón­list og enginn sam­bæri­legur staður á Ís­landi, en að það verði blóm­legt líf þar á­fram. En það verður þá ein­hvern veginn öðru­vísi,“ segir Hörður.

Ljóst er að Hörður Ás­kels­son á sér dygga stuðnings­menn innan ís­lensks tón­listar­lífs en undir færslu Einars Karls Haralds­sonar á Face­book-síðu Hall­gríms­kirkju má finna fjöl­mörg um­mæli sem gagn­rýna af­stöðu sóknar­nefndarinnar og lýsa henni sem niður­lægjandi og ó­sann­gjarnri gagn­vart Herði. Hörður segist sjálfur þó ekki hafa neinn á­huga á að fara út í deilur við Einar Karl eða sóknar­nefndina.

„Ég hef engan á­huga á því að fara í hart út af ein­hverjum svona málum, þó honum hafi orðið á. Mér finnst þetta mjög sorg­legt en ég sé líka tæki­færin sem eru handan við hornið. Við erum að leita okkur að að­stöðu fyrir æfingar, það er það sem við þurfum og svo getum við bara sungið þar sem við erum vel­komin,“ segir Hörður og bætir við að bæði Mótettu­kórinn og Schola cantorum séu með verk­efni að minnsta kosti tvö ár fram í tímann og muni leita leiða til að finna nýja staði til að flytja tón­list sína.

„Það eru fínar kirkjur til sem eru með góðan hljóm­burð eins og Hall­gríms­kirkja þó þær séu ekki jafn stórar og ekki jafn á­hrifa­mikil hús. Hall­gríms­kirkju náttúr­lega ber svo­lítið hátt í saman­burði við flestar aðrar kirkjur og í 39 ár hef ég notið þess að ráða þar miklu sem hefur á margan hátt breytt á­sýnd kirkjunnar og við­horfi til hennar. Það hefur verið alveg ó­trú­legt hvað ég fæ mikinn stuðning úr öllum áttum, alls konar fólk hringir í mig og segir að það sé stór­slys að við förum þaðan. Ég get ekkert annað en bara klökknað og þakkað fyrir að fólk vilji koma fram og styðja mann,“ segir Hörður.

Til stóð að Mótettu­kórinn myndi sjá um kór­söng í Hall­gríms­kirkju út maí­mánuð eftir að messu­hald var leyft aftur en nú hefur fram­kvæmda­nefnd kirkjunnar af­þakkað söng kórsins. Hörður segir þó að kór­fé­lagar stefni á að halda tón­listar­gjörning á torginu fyrir utan kirkjuna í lok mánaðar þar sem nú­verandi og fyrr­verandi kór­fé­lagar muni kveðja kirkjuna, en síðasti starfs­dagur hans er 31. maí næst­komandi.