Hörður Felix Harðar­son lög­maður segir ekki rétt að hann hafi boðið Þór­hildi Gyðu Arnars­dóttur þagnar­skyldu­samning. Hann hafi aldrei átt í sam­skiptum við hana í tengslum við mál knatt­spyrnu­mannsins Kol­beins Sig­þórs­sonar. Í frá­sögn hennar sé ekki eitt sann­leiks­korn.

Þetta kemur fram í að­sendri grein Harðar Felix á vísir.is. Í greininni fer Hörður Felix yfir um­ræðu síðustu daga um mál­efni Kol­beins. Hann furðar sig á á­kvörðun stjórnar KSÍ að taka Kol­bein út úr leik­manna­hópi ís­lenska lands­liðsins í undan­keppni HM. Hörður Felix segir á­kvörðunina hafa vakið at­hygli víða um heim og að nú standi Kol­beinn frammi fyrir því að hugsan­lega missa lífs­viður­væri sitt sem at­vinnu­maður í knatt­spyrnu.

Hörður Felix segir Kol­bein hafa tekið málið al­var­lega þegar það átti sér stað fyrir fjórum árum. Minni hans og upp­lifun af at­vikum þetta kvöldi hafi þó verið tals­vert annað en kvennanna tveggja. Hann hafi sýnt á­byrgð og átt fund með þeim þar sem hann sýndi máli þeirra skilning og baðst inni­legrar af­sökunar. Þá hafi hann orðið við öllum kröfum kvennanna um greiðslur og þar með hafi málinu verið lokað í sátt og sam­lyndi. Í kjöl­farið hafi lög­reglan fellt málin tvö niður.

„Er þetta raun­veru­lega það þjóð­fé­lag sem við viljum lifa í? Er það rétt og eðli­legt að ein­staklingar séu for­dæmdir og út­skúfaðir með þessum hætti, án dóms og laga? Átti Kol­beinn að bregðast öðru­vísi við á sínum tíma eða er það ein­fald­lega svo að ferill knatt­spyrnu­manna sé á enda við hvers kyns hugsan­legar mis­fellur eða á­sakanir?“spyr Hörður Felix. Hann telur á­kvörðun stjórnar KSÍ mis­ráðna og tekna í geðs­hræringum.

Kolbeinn Sigþórsson knattspyrnumaður.
Fréttablaðið/getty