Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, gagnrýnir samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga harðlega fyrir bréf til sveitarfélaga vegna kjaradeilu þeirra og Starfsgreinasambandsins (SGS).

Í bréfinu, sem var birt á fréttablaðið.is í fyrradag, kemur fram að sveitar­félögum sé með öllu óheimilt að greiða starfsmönnum sínum innan SGS 105 þúsund króna eingreiðslu um næstu mánaðamót. Hins vegar munu starfsmenn þeirra í öðrum stéttarfélögum fá eingreiðsluna sem er hluti endurskoðaðrar viðræðuáætlunar í kjaraviðræðum aðila.

Samninganefnd SÍS fer með samningsumboð fyrir öll sveitarfélög landsins að Reykjavíkurborg undanskilinni. Bæði ríki og Reykjavíkurborg hafa ákveðið að greiða starfsmönnum sínum sem eru í Eflingu eingreiðsluna.

„Grimmd og skeytingarleysi samninganefndarinnar eru óskiljanleg,“ er haft eftir Sólveigu Önnu. Samið hafi verið um eingreiðsluna vegna þess að viðræður hafi dregist fram úr hófi. Spjótin standi nú á öllum sveitarstjórnum landsins fyrir utan Reykjavík.

„Vilja kjörnir fulltrúar um land allt, fólk sem sjálft er á góðum launum, virkilega vera þekkt fyrir það að ætla að hafa 105.000 krónur af því fólki sem sannarlega munar um þessa upphæð?“ spyr Sólveig.