„Í dag er full samstaða um að við eigum að vernda grundvallarréttindi – þau sem eru brotin á hverjum degi í Tyrklandi. En það eru skiptar skoðanir um hvort mannréttindi eigi að leiða af sér túlkun sem þvingar aðildarríki til að tryggja dvalarleyfi fyrir erlenda glæpamenn, skipuleggja vinnumarkaðinn með tilteknum hætti eða veita aðgang að opinberum skjölum á grundvelli laga,“ sagði Mads Bryde Andersen, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, í gagnrýni sinni á Mannréttindadómstól Evrópu í tilefni af 100 ára afmæli Hæstaréttar Íslands. Andersen var einn ræðumanna á hátíðarsamkomu sem efnt var til í Þjóðleikhúsinu á sunnudaginn.

Andersen er nokkuð umdeildur í danska fræðasamfélaginu en hann hefur gagnrýnt bæði dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu og aðild Danmerkur að honum árum saman. Hann hefur meðal annars talað fyrir því að Danir afturkalli aðild sína að Mannréttindasáttmála Evrópu til að komast undan áhrifum dómstólsins.

Í erindi sínu fór Andersen yfir hlutverk æðstu dómstóla Norðurlandanna, sem ber stjórnarskránum samkvæmt að dæma eingöngu eftir lögunum og gæta þess að stíga ekki inn á svið hins lýðræðislega kjörna löggjafa. Önnur viðhorf séu við lýði hjá alþjóðadómstólum og Mannréttindadómstóllinn hafi víkkað mjög út inntak ákvæða Mannréttindasáttmálans í dómaframkvæmd sinni.

„Eru ekki allir sammála um að við viljum vernda mannréttindi eins vel og við getum?“ spurði Andersen og svaraði sjálfur: „Jú, kannski, en bara kannski. Svarið fer eftir því hvaða mannréttindi við erum að tala um. Ef átt er við þau sem brotin eru í Tyrklandi á hverjum degi, getum við svarað játandi. Enginn hér á Norðurlöndunum leggur blessun sína yfir þær árásir á tjáningarfrelsið, frelsi fræðimanna og dómara sem þar viðgangast. Sé hins vegar litið til margra dóma sem MDE hefur kveðið upp gegn ríkjum í Norður-Evrópu, þar sem réttur til fjölskyldulífs kemur í veg fyrir brottvísun glæpamanna, réttur til einkalífs bannar hávaða frá flugvöllum og næturklúbbum […] þá erum við komin inn á svið samfélagsins þar sem viðhorfin eru mörg og öll jafn góð,“ sagði Andersen meðal annars í ræðu sinni.

Í svari Hæstaréttar við fyrirspurn Fréttablaðsins, um ástæður þess að Andersen var boðið að ávarpa gesti á afmæli réttarins, segir að ákveðið hafi verið að fyrirlesarar á samkomunni yrðu tveir, einn innlendur og annar erlendur. Um Andersen segir í svari Hæstaréttar:

„Mads Bryde Andersen prófessor við Kaupmannahafnarháskóla er einn fremsti fræðimaður á sviði lögfræði á Norðurlöndunum. Hann hefur í ræðu og riti látið sig miklu varða starfsemi og aðferðarfræði alþjóðlegra dómstóla og dómstóla á Norðurlöndum.“