Verjendur hinna ákærðu í hinu svokallaða saltdreifaramáli gengu hart að lögreglumönnum og öðrum sérfræðingum innan lögreglunnar sem komu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur við aðalmeðferð málsins í gær.

Aðalmeðferðmálsins hófst á mánudag og stendur út vikuna en skýrslutökum lauk nú skömmu eftir hádegi í dag.

Sagði lögreglu hafa handvalið samskipti

Verjendur fimmmenninganna gerðu athugasemdir við ýmis vinnubrögð lögreglunnar í málinu og gekk einn verjanda svo langt að segja að það liti út fyrir að lögreglan hafi handvalið samskipti út úr samskiptaforritinu EncroChat sem komu sér illa fyrir skjólstæðing sinn í stað þess að horfa á heildarmyndina. Þá sagði hann ekkert að marka sum gögn lögreglu.

Sá spurði lögreglumann einnig að því hvort hann gæti sjálfur lesið úr gögnum lögreglu, fengi hann frumrit þeirra en samkvæmt svari lögreglumanns væri það erfitt en ekki ómögulegt.

Úr dómsal í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Fréttablaðið/Anton Brink

Við hlustun í gær var ljóst að lögreglan hefur unnið hörðum höndum að málinu í langan tíma. Fjöldinn allur af skýrslum og greiningum hefur verið unnin af lögreglu en sérstakur vinnuhópur var stofnaður innan lögreglunnar vegna málsins á meðan rannsókn þess stóð.

Hluti af þeim gögnum sem lögreglan studdist við voru fengin í gegnum samstarf við Interpol frá lögreglunni í Frakklandi en það voru gögn úr samskiptaforritinu Encrochat en í þeim gögnum er saltdreifarinn ræddur í dulkóðuðu máli.

Notendur þess forrits gangast undir ýmsum nöfnum en lögreglan hefur grun um að notendur á bak við nöfnin NuclearFork og ResidentKiller séu þeir Guðlaugur Agnar Guðmundsson og Halldór Margeir Ólafsson. Þeir hafa báðir neitað sök. En hverjir standa að baki NuclearFork og Resident Killer er ein af lykilspurningum málsins.

Tvö þúsund blaðsíður af gögnum

Í skýrslutökum í gær kom fram að notendurnir notuðu meðal annars ákveðið hestatal sín á milli. Lögreglan mat svo að „horaður hestur“ væri slangur yfir saltdreifarann í samskiptunum. Verjandi eins ákærða spurði lögreglu hvort óeðlilegt væri að tveir menn, báðir hestamenn og í hrossarækt, ættu samtöl um hesta og hestamál. Lögreglan sagði svo ekki vera.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, verjandi Halldórs Margeirs, gekk hart að lögreglu og sérfræðingum í gær en hann spurði lögreglumann meðal annars hvort það hafi verið mikil pressa innan lögreglunnar að koma með árangur. Rannsóknin hefði staðið yfir í langan tíma og væri umdeild innan lögreglunnar. Hvort það hafi verið pressa að klára. Sá sagðist ekki hafa fundið fyrir því í sinni vinnu við rannsókn málsins.

Málið er eitt stærsta fíkniefnamál sinnar tegundar hér á landi og gríðarlega viðamikið en heildargögn málsins telja að minnsta kosti yfir tvö þúsund blaðsíður miðað við það sem fram kom við aðalmeðferð málsins í gær. Þá hefur lögreglan fylgst með hinum ákærðu í langan tíma en saltdreifarinn sjálfur kom til landsins í byrjun febrúar 2020. Lögreglan fann saltdreifarann í útihúsi að Hjallanesi á Hellu í nóvember 2020 en lagði þó ekki hald á hann við húsleit fyrr en undir lok maí 2022 vegna rannsóknarhagsmuna.

Götuverð efnanna um 1,7 milljarðar

Fimm karlmenn eru ákærðir vegna málsins og báru þeir vitni fyrir dómi á mánudag. Það eru þeir: Agnar Guðmundsson, Guðjón Sigurðsson, Halldór Margeir Ólafsson, Ólafur Ágúst Hraundal og Geir Elí Bjarnason.

Þrír þeirra, Guðlaugur, Guðjón og Halldór eru ákærðir fyrir innflutning á tugum lítra af amfetamínbasa sem faldir voru í saltdreifara sem kom til landsins í byrjun árs 2020. Þeir eru grunaðir um að hafa framleitt allt að 117,5 kíló af amfetamíni í sölu- og dreifingarskyni. Lögreglan metur götuvirði efnanna um 1,7 milljarðar króna.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, verjandi Halldórs Margeirs, gekk hart að lögreglu og sérfræðingum í gær. Ólafur og Halldór voru báðir viðstaddir í dómsalnum í gær en ekki aðrir sakborningar.
Fréttablaðið/Anton Brink

Guðjón, Halldór Margeir, Geir Elí og Ólafur Ágúst eru sömuleiðis ákærðir fyrir að hafa staðið saman að kannabisræktun í útihúsi við heimili Guðjóns á Hellu. Lögreglan lagði hald á rúmlega sex kíló af kannabisplöntum, rúm 16 kíló af marijúana og 131 kannabisplöntur í aðgerð lögreglu í maí síðastliðnum.

Ólafur Ágúst er sakaður um að hafa haft í vörslum sínum talsvert magn af fíkniefnum á þremur stöðum.

Aðalmeðferð málsins hófst sem fyrr segir á mánudaginn síðastliðinn en skýrslutökum lauk nú skömmu eftir hádegi. Á morgun mun málflutningur saksóknara og verjanda hinna ákærðu fara fram.