„Við megum bara þakka guði fyrir að það varð ekkert óhapp og ekkert slys á meðan það var allt sambandslaust,“ segir Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra.

Sveitarstjórnin í Húnaþingi sendi í gær frá sér afar harðorða bókun vegna ástandsins sem skapaðist í kjölfar óveðursins sem hófst í fyrradag. „Ljóst er að allir helstu opinberu innviðir samfélagsins brugðust í því veðuráhlaupi sem nú gengur yfir,“ segir í bókuninni þar sem hvassri gagnrýni er beint að RARIK, Landsneti og fjarskiptafyrirtækjunum sem sögð eru hafa verið algerlega óundirbúin.

„Óásættanlegt er að tengivirkið í Hrútatungu hafi verið ómannað þrátt fyrir yfirlýsingar Landsnets um annað,“ segir í bókuninni. Að sögn Ragnheiðar hafði Landsnet sagt, áður en veðrið skall á, að búið væri að manna alla staði.

„Svo kom bara í ljós að það var enginn hér í Hrútatungu,“ segir Ragnheiður sem kvað björgunarsveitir hafa verið níu klukkustundir í fárviðri að brjótast að Hrútatungu. „Ef það hefði verið maður þarna nær þá hefði hann getað byrjað strax að hreinsa og athuga með skemmdir.“

Í gærkvöld var enn ekkert rafmagn á Vatnsnesi og í Vesturhópi og ekki búist við að það kæmist á aftur næstu einn til tvo sólarhringa að sögn Ragnheiðar. Þá hafði rafmagn verið úti í Hrútafirði. Snerti það meðal annars börn í skólaferðalagi á Reykjum. Nánar má lesa um ævintýri þeirra á frettabladid.is.

Er rætt var við Ragnheiði í gærkvöldi voru liðsmenn björgunarsveitarinnar Húna að búa sig til að gá að fólki úti á Vatnsnesi þar sem það hafði setið sambandslaust og rafmagnslaust í ísköldum húsum. „Þau eru að fara að athuga með fólk sem hefur ekki heyrst frá í tæpa tvo sólarhringa,“ sagði sveitarstjórinn.