Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að hópur sem kínverska konan sem lést í Reynisfjöru í gær kom með hafi fengið skilmerkilegar leiðbeiningar áður en farið var í fjöruna.

Konan lést er alda hrifsaði hana úr Reynisfjöru eftir hádegi í gær. Auk konunnar fengu fleiri ölduna á sig en viðkomandi náðu þó á þurrt. „Það var mikil alda í gær,“ segir Oddur í samtali við Fréttablaðið.

Um er að ræða þriðja dauðsfallið af þessu tagi á svæðinu frá árinu 2016. Það ár lést kínverskur karlmaður í Reynisfjöru og á árinu 2017 drukknaði þýsk kona sem alda hrifsaði við Dyrhólaey. Öll voru þau ferðamenn.

Aðspurður segir Oddur að ferðmannahópurinn sem konan kom með í Reynisfjöru hafi fengið leiðbeiningar um þær hættur sem þar leynast. Það hafi komið fram er skýrslur hafi verið teknar af öllum vitnum. Sú vinna hafi staðið fram á kvöld í gær til að tryggja að framburður viðkomandi myndi fást áður þau hyrfu úr landi.

„Þeim ber saman um að það hafi verið farið vandlega yfir hættur og ástand í fjörunni áður en farið var úr bílnum. Þannig að það vantaði ekkert upp á það samkvæmt því,“ segir Oddur. Þessu til viðbótar má nefna að í Reynisfjöru eru viðvörunarskilti sem meðal annars eru á kínversku.

Að sögn yfirlögregluþjónsins liggur nú fyrir að kryfja látnu konuna til að slá á föstu dánarorsökinni sem þó virðist vera augljós. Segir hann stúlkuna ekki hafa verið hér á ferð með ættingjum heldur með öðrum ferðafélögum sem verið hafi ásamt öðru ferðafólki í rútuferð með leiðsögn. Ekki hafi fengist staðfest frá kínverska sendiráðinu hér að ættingjunum hafi verið gert viðvart um andlát hennar. Því sé ekki unnt að gefa upp nákvæman aldur hennar en hún hafi verið um tvítugt.