Fjór­tán mann hópur göngu­fólks sem óskað hafði að­stoð við að komast niður af Hvanna­dals­hnjúki er kominn í öruggar hendur og er á leiðinni til byggðar. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar staðfesti þetta í samtali við Fréttablaðið.

Davíð segir fyrsta hóp björgunarsveitamanna hafi komið að hópnum um miðnætti í gærkvöldi og hófust þau þá handa við að koma skjóli yfir hópinn. „Hópurinn var orðinn kaldur og þreyttur eftir langan dag, svo það var beðið átekta á meðan þau höfðu skjól,“ segir Davíð og bætir við að veðrið hafi ekki verið eitthvað til að hrópa húrra yfir.

Davíð segir hópinn hafa haldið sig í tjöldum og snjóhúsum sem björgunarsveitin hafði komið upp. Um sexleytið í morgun hafði allur hópurinn verið fluttur niður með vélsleðum frá Björgunarsveitinni. Fólkinu var flýtt í heita bíla og öruggt skjól og er nú á leiðinni til Hafnar, „þar sem þeirra bíður gómsæt kjötsúpa, “ eins og Davíð sagði.

Davíð segir engin slys hafa verið á fólki. „En það voru nokkrir kaldir og hraktir eins og gerist. Það var leiðinlegt veður og kalt á jöklinum og hópurinn hafði verið á göngu allan daginn,“ segir hann.

Björgunar­sveitir voru kallaðar út í gær til þess að koma að björgun á Hvanna­dals­hnjúki. Ferða­mennirnir sendu boð með neyðar­sendi sem Land­helgis­gæslan hafði tekið á móti.

Davíð Már Bjarna­son, upp­lýsinga­full­trúi Lands­bjargar, sagði við Frétta­blaðið í gær að verið væri að koma fjór­tán manna göngu­hópi til hjálpar sem fyrst hafði óskað eftir hjálp um fimm­leytið í gær. Hópurinn hafði lent í vand­ræðum með leið­sögu­búnað.