„Þessi hugmynd er búin að vera í pípunum hjá mér í langan tíma og ég er viss um að þetta víkingasafn mun einn daginn rísa, það er bara spurning um hvar og hvenær. Ég er virkur meðlimur í Rimmugýg, víkingafélaginu í Hafnarfirði, hef farið á alþjóðlegar víkingahátíðir og þorp erlendis undanfarin fimmtán ár þar sem hugmyndin hefur þróast í átt að þessari útfærslu,“ segir Theódór Árni Söebech Hansson, aðspurður út í hugmyndina um Hringborg.

Hugmyndin var lögð fyrir bæjaryfirvöld í Garðabæ í von um að fá lóð en bæjarráð vísaði málinu til bæjarstjóra. Theodór er einn þeirra sem standa að hugmyndinni ásamt Beth Rogers, stundakennara við Háskóla Íslands, Helgu Rós Helgadóttur ferðamálafræðingi og fleirum.

Í skjalinu sem sent var til Garðabæjar kemur fram að Hringborg yrði menningar- og menntasetur sem væri um leið útisafn innan hringvirkis. Innan þess væru hús líkt og voru á víkingaöld en hugmyndin byggist á Víkingasetrinu í Ribe í Danmörku. Þar að auki er lagt til að hægt verði að halda námskeið í hinu ýmsa handverki innan Hringborgar en talið er að það verði um 1,5 til tveir hektarar af landsvæði, helst innan höfuðborgarsvæðisins, sem væri auðveldlega aðgengilegt með almenningssamgöngum.

Vinsælt á Norðurlöndum

„Þetta er mjög vinsælt erlendis. Sambærileg söfn í Svíþjóð og Danmörku hafa reynst vel og á sumum stöðum er boðið upp á að dveljast og upplifa lifnaðarhætti fortíðarinnar. Þetta er ekki bara fyrir ferðamenn því þetta býður einnig upp á ýmsa möguleika fyrir menntastarf á Íslandi,“ segir Theodór og heldur áfram: „Þetta yrði kjörinn staður fyrir ungt fólk að læra sjálfbærni en um leið hluti eins og trésmíði, vefnað, bogfimi og leðurvinnslu. Þessar gömlu góðu aðferðir í handverki sem eru ákveðin menningarverðmæti en eru í hættu á að gleymast.“

Í kynningunni er talað um að Evrópusambandið hafi aðstoðað við að fjármagna slík söfn en einnig er nefndur til sögunnar möguleikinn á hópfjármögnun.

„Safnið í Ribe var að stærstum hluta byggt upp á styrkjum frá Evrópusambandinu en einnig á styrkjum frá danska ríkinu. Það er mikið af styrkjum á alþjóðlegum grundvelli sem hægt er að sækja um en þegar þetta er upp komið ætti það að vera sjálfbært fljótlega. Svo verður hægt að fjárfesta í stökum verkefnum innan þorpsins, víkingaskipi eða einhverri tegund af byggingu og þá væri nafn einstaklingsins grafið í sem nokkurs konar minnisvarði.“