Hópur ungmenna laumaðist í sund í gær en lögreglu barst tilkynning þess efnis laust fyrir klukkan tíu í gærkvöld. Þegar lögregla kom að voru öll nema eitt komið ofan í laugina. Málið var afgreitt með aðkomu foreldra. Ekki er tekið fram í hvaða sundlaug atvikið átti sér stað en málið var afgreitt á lögreglustöð 3 sem annast Kópavog og Breiðholt.

Eins og fram hefur komið þá eru sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu lokaðar til 19. október næstkomandi vegna fjölda nýrra kórónuveirusmita hér á landi. Síðustu þrjá sólarhringa hafa 280 ný smit greinst hér á landi, lang flest á höfuðborgarsvæðinu.

Klukkan fimm í gær var lögreglu tilkynnt um par í annarlegu ástandi í verslun. Annar aðilinn var talinn vera með hníf og vera ógnandi í hegðun. Aðilarnir voru yfirbugaðir af lögreglu. Þau voru bæði handtekin og flutt á lögreglustöð. Þá er annar aðilinn grunaður um innbrot í fyrirtæki í nágrenni verslunarinnar.

Á sjötta tím­an­um í gær var ekið á hjól­reiðamann og hann flutt­ur með sjúkra­bif­reið á  bráðamót­töku í Foss­vogi. Ekki kem­ur fram í dag­bók lög­reglu hvar þetta var annað en að lög­reglu­stöð 2 sinnti mál­inu en hún ann­ast Hafn­ar­fjörð, Garðabæ og Álfta­nes. 

Tilkynnt var um tvo þjófnaði um sjö leytið í gærkvöld. Brotist var inn í verslun í Reykjavík og verðmætum stolið, aðili hljóp á brott með þýfið. Þá var tilkynnt um þjófnað á fartölvum úr heimahúsi. Talið að gerandi hafi farið inn á heimilið á meðan húsráðendur voru heima.

Lögregla hafði afskipti af tveimur ökumönnum sem grunaðir voru um akstur undir áhrifum fíkniefna í gærkvöld. Ökumennirnir reyndust auk þess báðir vera án gildra ökuréttinda. Annar var einnig á ótryggðri bifreið. Báðir ökumennirnir voru handteknir og færðir á lögreglustöð en lausir að sýnatöku lokinni.

Einnig bárust tvær kvartanir vegna hávaða um klukkan tvö í nótt. Önnur var vegna samkvæmishávaða í fjölbýlishúsi en hin var vegna mikils hávaða frá sjónvarpi í íbúð í fjölbýlishúsi.