Hagstofan hefur tekið saman að tæplega helmingur þess fjár sem varið var til birtingar auglýsinga innanlands árið 2021 rann til erlendra aðila.
„Við í ríkisstjórninni erum sammála um það að skoða þurfi allt fjölmiðlalandslagið og það verður kynnt í næstu viku hvernig þeirri vinnu verður háttað,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Að sögn Lilju kemur meðal annars til greina að beita skattalegum hvötum til að fá auglýsendur til að auglýsa í innlendum miðlum þótt hafa þurfi í huga að menn auglýsi þar sem fólkið sé.
„Í öðru lagi settum við styrkjakerfið á þótt ég hafi alltaf sagt að það sé ekki eina og endanlega lausnin. Í þriðja lagi er spurningin um hvort RÚV eigi að vera með auglýsingar,“ segir ráðherra og bendir á að ekki hafi verið pólitísk sátt um að auglýsingar hyrfu úr RÚV.
„Við þurfum að huga að ákveðinni vitundarvakningu,“ segir Lilja. „Við verðum að hafa öfluga fjölmiðla á Íslandi, upp á orðaforða og upp á skilning á málefni líðandi stundar. Og það þarf að vera á móðurmálinu. Það er ákaflega mikilvægt að þetta takist.“
Heildargreiðslur vegna auglýsingakaupa á árinu 2021 hér á Íslandi námu fast að 22 milljörðum króna, þar af féllu 9,5 milljarðar króna í hlut útlendra miðla, eða 44 prósent, á móti 12,3 milljörðum til innlendra miðla sem er um 56 prósent af heildinni.