Sérfræðingahópur á vegum slysavarnafélagsins Landsbjörg mun halda til Tyrklands til að aðstoða vegna jarðskjálftanna sem riðu yfir landið í gær. Um 5000 manns eru látnir í bæði Tyrklandi og Sýrlandi og um tuttugu þúsund manns slasaðir.
Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að tyrknesk yfirvöld höfðu þegið boð Íslands um aðstoð vegna jarðskjálftana sem riðu yfir í gærmorgun.
Í gær hófu Landsbjörg og utanríkisráðuneytið að undirbúa hóp sérfræðinga til aðstoðar og liggur nú fyrir að níu manna hópur muni fljúga til Tyrklands með TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar eftir hádegi í dag.
Hópurinn samanstendur af sérfræðingum í aðgerðastjórnun og samhæfingu aðgerða. Um 80 alþjóðlegar sveiti hafa nú þegar boðað komu sína.
Sólveig Þorvaldsdóttir mun leiða hópinn, en hún hefur mikla reynsla af stýringu og samhæfingu aðgerða í alþjóðlegum aðgerðum.
Einnig eru verkfræðingar, læknir og búðastjóri í hópnum, sem mun vera við störf í sjö daga.
