Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, fór fyrir 50 manna hópi íslenskra ferðalanga í Færeyjum í vikunni sem er að líða – og má heita, að hans sögn að mannskapurinn hafi dottið í lukkupottinn þegar hann frétti óvænt af því að verið væri að smala 20-30 grindhvölum inn Skálafjörð, rétt sunnan við bæinn Rúnavík.

Rútu hópsins var snarlega snúið við og haldið niður að bryggju, þar sem hópur Færeyinga var mættur til að taka á móti hvölunum og landa þeim með viðeigandi hætti.

Ákveðnar reglur gilda um meðferð dýranna eftir að þeim hefur verið slátrað og urðu Íslendingarnir á kajanum vitni að því þegar vörpulegur hópur atvinnumanna stjórnaði þeim aðgerðum af reynslunnar kúnst.

Meðal þess sem þarf að sinna, þegar dýrin eru tekin á land, er að merkja þau eftir fjölda skinna sem af þeim hljótast, áður en skurðurinn hefst með þar til bærum amboðum, en að því loknu er kjötið og spikið skolað með sverum og kraftmiklum vatnsslöngum – og gengur þá mikið á.

Í þessu tilviki var verkefnið líka ærið, því alls var 24 dýrum slátrað við bryggjuna í Skálafirði þennan dag.

Auðveldara að selja aðgengi að þessu en Norðurljósaupplifun

Guðni stóð þarna á hafnarbakkanum í Skálafirði jafn gapandi og hinir íslensku ferðalangarnir, öllu vanari því að eigin sögn að vera viðstaddur smalamennsku í návígi við fjórfætta sauðkindina en öllu stærri skepnur hafdjúpanna. Guðna þótti mikið til koma eins og öðrum í hópnum, einkum hversu faglega var að verki staðið.

Grindhvalirnir tilheyra minnstu tegundum hvala og eru 7-10 metra langir. Grindhvalaveiðar hafa verið eins konar þjóðaríþrótt Færeyinga um langa hríð og má heita að allir Færeyingar, allt frá blautu barnsbeini að öldruðum eyjaskeggjum, þekki til þessara tilburða, sem leika lykilþætti í ímynd og sögu færeysku þjóðarinnar.

„Það væri miklu auðveldara að selja aðgang að þessu frekar en að upplifa Norðurljósin,“ segir Sigurður K. Kolbeinsson hjá Ferðaskrifstofu eldri borgara, en þessi óvænta uppákoma varð að hápunkti vel heppnaðrar ferðar eldri borgara til Færeyja að þessu sinni, þeirrar fjórðu á þessu ári.

Þess má geta að engin smit hafa mælst í Færeyjum undanfarna daga og aðeins eru sex smitaðir á öllum eyjunum og enginn inniliggjandi á spítala.