Héraðs­dómur Suður­lands sýknaði í gær fimm ein­stak­linga sem höfðu brotist inn til manns, veist að honum og rakað af honum hárið í ágúst árið 2016. Sökum þess hve langur tími hafði liðið frá brotinu voru þau sýknuð og bóta­kröfu mannsins var vísað frá.

Fimm­menningarnir voru einnig sýknaðir af annarri á­kæru þar sem þeim var gert að sök að hafa beitt manninn kyn­ferðis­legri á­reitni með því að hafa troðið raf­magns­rak­vél á milli rass­kinna hans og skilið hana eftir í gangi. Ekki þóttu næg sönnunar­gögn liggja fyrir þeim lið á­kærunnar.

Vildi ekki kæra manninn

Maðurinn sagði að­draganda á­rásarinnar hafa verið þann að 28. júlí árið 2016 hafi hann eytt nótt með 18 ára stúlku og „hafi það lagst eitt­hvað illa í vin­konur hennar og sam­starfs­konur.“ Maðurinn sagði það sem átti stað þess nótt hafa farið fram með sam­þykki beggja en svo virðist sem ekki hafi allir verið sam­mála því.

Ein þeirra á­kærðu sagði að um­rædd stúlka hafi ekki viljað kæra manninn og því hafi hún á­kveðið að fara, á­samt öðrum, að ræða við manninn. Stúlkan sjálf var ekki með í för.

Notuðu hrossa­klippur við raksturinn

Þann 11. ágúst árið 2016 brutust sjö ein­staklingar ó­boðin heim til mannsins þar sem hann lá sofandi í rúmi sínu. Fimm þeirra sem voru síðar á­kærð en ekki var höfðað mál gegn tveggja stúlkna sem maðurinn kannaðist ekki við.

Fjórir ein­staklingar héldu manninum nauðugum á höndum og fótum og sneru síðan upp á hendur hans, klipu hann og slógu víðs­vegar um líkamann. Á meðan á því stóð rakaði kona í hópnum mest allt hárið af höfði hans með hrossa­klippum og raf­magns­rak­vél sem hópurinn hafði í för með sér.

Tróðu rak­vél að enda­þarminum

Maðurinn lýsti því að hafa síðan komist undan hópnum en að hann hafi verið yfir­bugaður á ný fyrir framan hús sitt. Hann sagði fimm ein­stak­linga síðan hafa haldið sér niðri á meðan konan sem mundaði rak­vélina dró niður buxur hans og tróð raf­magns­rak­vélinni milli rass­kinnanna ,að enda­þarms­opi hans, og skildi hana eftir í gangi.

Í kjöl­far þessa at­burða hlaut maðurinn nokkur grunn sár í hár­sverði, bólgu á ennið, mar á hægri oln­boga, stirð­leika í hálsi, eymsli við enda­þarms­op og þá missti hann nær allt hár af höfði sér.

Þrjú ár liðu frá því innbrotið var framið þar til ákært var í málinu.

Kannast ekki við á­sakanir

Þau á­kærðu neita öll sök í málinu og kannast ekkert þeirra við að hafa beitt manninn of­beldi eða að hafa notað raf­magns­rak­vél, ýmist til að raka af honum hárið eða til að setja vélina á milli rass­kinna hans.

Þrjár þeirra sem voru á­kærðar lýstu því að hafa farið heim til mannsins til að ræða við hann um það sem fram fór á milli hans og stúlkunnar sem hann hafði eytt nótt með. Þær báru allar fyrir sig minnis­leysi af at­burðum kvöldsins enda höfðu þær haft á­fengi um hönd.

Hluti þeirra á­kærðu höfðu unnið fyrir manninn um sumarið og heyrt af af­skiptum hans við stúlkuna, minnst tvö þeirra höfðu slitið vinnu­sam­skiptum við manninn eftir það at­vik.

Rýrði sönnunar­gildi

Vitni að at­burðunum kvaðst hafa séð hópinn veitast að manninum fyrir utan hús hans þar sem raf­magns­rak­vélinni var troðið milli rass­kinna mannsins. Við frum­skýrslu lög­reglu daginn eftir á­rásina minntist maðurinn þó ekki á að rak­vél hafi verið troðið á milli rass­kinna hans.

Það var fyrst við yfir­heyrslu lög­reglu þann 12. októ­ber sama ár sem maðurinn minntist á þann hlut málsins. Að mati dómsins rýrði þetta sönnunar­gildi vitnis­burðar mannsins.

Þrjú ár milli brots og á­kæru

Í úr­skurði héraðs­dóms kemur fram að þau brot sem fimm­menningarnir voru sak­felld fyrir hafi verið fram í ágúst árið 2016 en að á­kæra hafi ekki verið gefin út fyrr en í ágúst árið 2019, eða um þremur árum síðar.

Sam­kvæmt hegningar­lögum fyrnist sök á tveimur árum þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en eins árs fangelsi eða refsing sú fari ekki fram úr sektum. Þau á­kærðu voru því sýknuð og er máls­kostnaður allur greiddur úr ríkis­sjóði.