Hópur af íslenskum unglingspiltum plötuðu dreng af erlendum uppruna til að hitta þá hjá verslunarkjarna í Grafarvogi þar sem þeir biðu eftir honum til þess að ráðast á hann. Drengurinn var plataður á staðinn og þegar hann kom beið hans hópur af ungum drengjum á aldrinum 13 til 15 ára.

Sigurður Hólm Gunnarsson, forstöðumaður hjá Barnavernd, keyrði fram hjá og skarst í leikinn.

„Ég sá hóp af ungum mönnum ráðast að einum með ofbeldi og aðra taka það upp á símann sinn,“ segir Sigurður í færslu sem hann birti á Facebook í dag. Hann skarst í leikinn og segir strákana hafa rifið kjaft og sagt honum að málið kæmi honum ekki við. Þá hafi hann hringt í lögregluna.

„Ég sagði þeim að ég myndi hringja í lögregluna. Þeir voru með stæla og ætluðu ekkert að fara neitt. Þeir voru frekar ógnandi. Ég tók upp símann og hringdi og var með lögregluna á speaker. Þá hurfu þeir í burtu,“ segir Sigurður í samtali í Fréttablaðið.

Skipuðu honum að sleikja skóna sína

Drengurinn hafi komið út úr strætó og þá hafi hópur af unglingspiltum verið að bíða eftir honum. Hann segir í samtali við Sigurð að hann hafi verið kallaður skítugur útlendingur og að þeir hafi skipað honum að sleikja skóna sína. Þegar hann neitaði var ráðist á hann og fékk hann högg í andlitið.

„Einhver sem hann kannaðist við hafði verið í sambandi við hann í gegnum Snapchat. Hann hafði beðið hann um að koma og hitta hann þarna. Þegar hann mætir, þá er þarna fullt af fólki. Það var greinilega verið að plata hann til að koma. Hann þekkti ekki mikið þennan strák,“ segir Sigurður sem beið með drengnum þangað til að lögreglan kom og tók skýrslu og skutlaði drengnum heim. Hann hafi verið logandi hræddur og hafi beðið Sigurð um að bíða með sér.

„Hann var skíthræddur og bað mig um að fara ekki. Ég ætlaði nú ekkert að fara. Þetta var ljótt að sjá.“

Hefði geta farið illa

Sigurður segist hafa séð nokkra bíla keyra fram hjá. Hann segir að mikilvægt sé að stoppa svona.

„Þetta blasti við öllum sem keyrðu fram hjá. Ef fólk sér eitthvað svona, þá á að stoppa þetta. Það má aldrei gera ráð fyrir að einhver annar geri eitthvað. Miðað við hvernig ástandið var á þeim þegar ég stoppaði þá hefði þetta geta farið illa.“

Hann segir drenginn ekki hafa slasast alvarlega en minnir á að fólki þurfi að vera vakandi.

„Þetta fór allt vel. Það var enginn slasaður alvarlega en hann var hræddur. En hver veit hvað hefði geta gerst ef enginn hefði stoppað. Fólk þarf að vera vakandi þegar það sér svona,“ segir Sigurður.