Félagsmenn Eflingar kusu í kvöld um að fella ekki úr gildi ákvörðun um hópuppsögn starfsfólks á skrifstofu félagsins. Það gerðu þau á fjölmennum félagsfundi sem fór fram í Valsheimilinu í kvöld. 152 félagsmenn vildu láta hópuppsagnirnar standa en 106 kusu með því að fella þær úr gildi.

Fundurinn hófst klukkan 18 í kvöld og stóð langt fram á kvöld. Fyrri tillaga fundarins sneri að skipulagsbreytingum á skrifstofu Eflingar sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður félagsins, hefur innleitt frá því að hún tók aftur við völdum. Sem hluti af því var að segja upp öllu starfsfólki skrifstofunnar og bjóða því að sækja um aftur á nýjum kjörum. Félagsmenn vörðu dágóðum tíma í að ræða fyrri tillöguna og var mikill hiti á fundinum.

Seinni tillaga fundarins sneri að því að fella úr gildi hópuppsagnirnar. Kosið var um tillöguna leynilega og svo niðurstaðan tilkynnt fundinum.

Fréttin hefur verið uppfærð.