Alls eru sjö einstkalingar skráðir með staðfest Covid-19 smit í Stykkishólmi. Samkvæmt vef Stykkishólmsbæjar tengjast allir þessir einstaklingar og hafa umgengist hóp af fólki.

Alls voru 18 einstaklingar í sóttkví í Stykkishólmi á mánudaginn en hluti þeirra hafa nú þegar útskrifast. Í ljósi fjölgunar smita í Stykkishólmi er hins vegar búist er við töluverðri fjölgun einstaklinga í sóttkví. Einnig er aukin skimun nú í undirbúningi.

Viðbragðsteymi Stykkishólmsbæjar fundaði með sóttvarnaryfirvöldum á Vesturlandi í gær. Á fundinum var ákveðið að grípa til varúðarráðstafana vegna fjölgunar smita í Stykkishólmi. Á Vesturlandi eru nú 11 með staðfest smit og í einangrun og 93 í sóttkví.

Í ljósi aðstæðna mun starfsemi stofnana Stykkishólmsbæjar færast nær því sem var í vor þegar faraldurinn var í meiri útbreiðslu, a.m.k fram að helgi á meðan smitrakningarteymi vinnur að því að ná sambandi við þá einstaklinga sem sæta þurfa sóttkví og niðurstöður skimana liggja fyrir.

Grunnskólinn og leikskólinn taka frá með deginum í dag upp hólfaskiptingu og skólahald í grunnskólanum mun nú hefjast klukkan 10. Dvalarheimili aldraðra hefur tímabundið lokað fyrir heimsóknir og það á einnig við um búseturéttaríbúðir.

Félagsmiðstöð grunnskólans leggst af fram yfir helgi og Ráðhús Stykkishólmsbæjar og aðrar stofnanir loka tímabundið fyrir gestum.

Íbúum er bent á að fylgjast vel með tilkynningum frá skólum og öðrum stofnunum Stykkishólmsbæjar.