Ástralar óttast nú aðra bylgju CO­VID-19 far­aldursins í Victoriu-ríki eftir að hóp­smit kom þar upp en í heildina hefur 51 greinst í tengslum við smitið. Ellefu til­felli greindust í ríkinu í gær og greindu áströlsk yfir­völd frá því á blaða­manna­fundi í dag að sex smit til við­bótar hafi greinst síðar um kvöldið.

Sjö daga út­göngu­bann tók gildi í ríkinu síðast­liðinn föstu­dag en áður en smitin komu upp hafði sam­fé­lags­smit ekki greinst í þrjá mánuði í höfuð­borg ríkisins, Mel­bour­ne. Að því er kemur fram í frétt Reu­ters um málið er talið mögu­legt að fjölgun smita geri það að verkum að út­göngu­bannið verði fram­lengt.

Óttast er meðal annars að veiran geti náð fót­festu á öldrunar­heimilum í ríkinu eftir að tveir starfs­menn og einn sjúk­lingur á Ar­care heimilinu í Mel­bour­ne greindust með veiruna. Þá er talið að nýtt af­brigði veirunnar, sem fyrst varð vart á Ind­landi, sé tölu­vert meira smitandi.

Að sögn James Merlino, starfandi ríkis­stjóra Victoriu, standa þau nú frammi fyrir mikilli á­skorun þar sem nokkur til­felli smits hafa náð að dreifa sér víða. Á­standið sé nú gífur­lega al­var­legt og munu næstu dagar skera úr um hvort staðan eigi eftir að versna enn frekar.

Ástralir hafa frá upp­hafi far­aldursins staðið sig einkar vel í að halda veirunni í skefjum en í heildina hafa rúm­lega 30 þúsund til­felli greinst þar í landi og 910 and­lát verið til­kynnt. Flest til­felli komu upp í Victoriu, eða tæp­lega 20.600 smit og 820 til­kynnt and­lát.

Gripið var til mjög harðra aðgerða í Victoriu snemma í faraldrinum vegna fjölda smita og í hvert sinn sem smit hefur komið upp í Ástralíu eftir fyrstu bylgjuna hafa yfirvöld verið fljót að grípa til aðgerða.