Ellefu ein­staklingar greindust með CO­VID-19 innan­lands í gær og þar af voru sex ein­staklingar utan sótt­kvíar. Fimm af þessum sex tengjast hóp­smiti sem kom upp á vinnu­stað á Suður­landi en talið er mögu­legt að ferða­langur með mót­efni hafi smitast aftur af veirunni við komuna hingað til lands.

Þetta segir Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Lík­lega er þetta landa­mæra­smit en við eigum eftir að fá stað­festingu úr rað­greiningu til þess að geta svarað því. Það sem að er á­huga­vert í því er að þetta er ein­stak­lingur sem var með vott­orð um fyrri Co­vid sýkingu er­lendis frá og er með mót­efni en er samt með veiruna þannig að þetta er spurning hvort að við­komandi gæti hafa smitast aftur,“ segir Þór­ólfur.

Að­spurður um hvort smitið gæti gefið til­efni til þess að endur­skoða bólu­setningaráætlanir í ljósi þess að hér á landi eru ekki uppi á­form um að bólu­setja fólk með mót­efni segir Þór­ólfur:

„Við vitum það að fólk getur smitast aftur en það er bara fá­títt og gríðar­lega sjald­gæft þannig að við förum ekki að koll­varpa öllu skipu­laginu út af einu til­felli. En þetta kveikir á á­kveðnum ljósum og við­vörunar­bjöllum sem við eigum bara að vera á varð­berði gegn.“

Hann bætir þó við að ef upp kæmu fleiri sam­bæri­leg til­felli þar sem ein­staklingar með mót­efni smitist aftur gæti þurft að endur­skoða bólu­setningar­á­ætlanir:

„Það gæti þýtt það ef við förum að sjá eitt­hvað svona að þá þurfum við hugsan­lega að endur­skoða bólu­setningar­plönin. Það fer líka eftir því hvaða af­brigði þetta er, þannig það er ýmsum spurningum ó­svarað,“ segir Þór­ólfur.

Nú­gildandi sótt­varnar­reglur gilda til 15. apríl og segist Þór­ólfur hvorki vera bjart­sýnn né svart­sýnn um hvort hægt verði að létta á að­gerðum eftir þann tíma.

„Það er greini­legt að það eru smit út í sam­fé­laginu. Við erum að greina smit hér og þar og svo allt í einu koma svona hóp­sýkingar upp og það gæti gerst víðar þar sem hópa­myndun er. Það vekur upp á­kveðnar á­hyggjur að við gætum farið að sjá fleiri og stærri hóp­sýkingar ef að við förum að leyfa meiri hópa­myndun en þetta skýrist bara á næstunni,“ segir Þór­ólfur.