Upp hefur komið stórt hópsmit á öldrunardeild Landakotsspítala en 16 sjúklingar og sex starfsmenn hafa greinst með COVID-19. Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra LSH, segir þetta eitt stærsta einstaka verkefni þeirra hingað til.

„Ætli þetta sé ekki stærsta einstaka verkefni okkar til. Það hefur verið gríðarlegur þungi í fjölmörgum verkefnum en þetta er með öðrum hætti. þetta er í fyrsta skipti sem við fáum svona stórt hópsmit,“ segir Anna í samtali við Fréttablaðið.

Hún segir stöðuna alvarlega.

Sýni voru tekin í morgun og í hádegi er enn beðið eftir niðurstöðum úr seinni skimuninni og liggur því ekki fyrir hve margir eru smitaðir.

Þurfa að vera hugmyndarík í mönnuninni

Um hundrað manns eru í sóttkví vegna þessa máls en á Landakoti eru 73 sjúklingar inniliggjandi. Að minnsta kosti tvær deildir eru komnar í sóttkví ásamt stórum starfsmannahópi. Aðspurð um mönnunina segir Anna:

„Við munu þurfa að vera hugmyndarík í mönnuninni og höfum þurft að vera það áður. Annars vegar köllum við út bakvarðarsveit og svo hugsanlega þurfum við að kalla til fólk sem er í sóttkví til starfa. Við þurfum að fara að meta það.“

Þá segir hún að starfsmenn í sóttkví, sem hafa fengið neikvæðar niðurstöður og eru einkennalausir, muni hugsanlega þurfa að mæta til vinnu í ljósi aðstæðnanna. Hún segir útbreiðsluna ekki ljósa en verið er að vinna í smitrakningu.

„Við vitum enn ekki hvernig smitið barst á Landakot en við erum að rekja, greina og skima. Niðurstðöurnar er ekki allar komnar í hús svo við vitum ekki alveg hvernig þetta verður.“