Líklegt þykir að ákvörðun verði tekin fyrir áramót um hvort einhverjir verði sóttir til saka vegna hoppukastala slyssins á Akureyri í byrjun júlí í fyrra.

Þetta segir Páley Borgþórsdóttir í samtali við RÚV.

Rannsókn á slysinu hefur staðið yfir á hálft annað ár og er nú komið í ákæruferli.

Hoppukastalinn tókst á loft við Skautahöllina á Akureyri í byrjun júlí í fyrra með um hundrað börnum innbyrðis með þeim afleiðingum að sex ára stúlka slasaðist alvarlega.

Matsmenn, veðurfræðingur og jarðverksfræðingur, voru meðal annars fengnir til að rannsaka hvernig hoppukastalinn var festur við jörðu.

Málið var sent til ákærusviðs í sumar og sagði Eyþór Þorbergsson, aðstoðarsaksóknari og staðgengill lögreglustjórans á Norðurlandi Eystra, í samtali við Fréttablaðið þá að nokkrir hafi verið yfirheyrðir sem sakborningar vegna málsins.

„Það er eðlilegt, þeir hafa betri réttarstöðu sem sakborningar. Það er ekki þar með sagt að þeir verði ákærðir,“ sagði Eyþór í júní síðastliðnum.

Fréttablaðið hefur greint frá löngu endurhæfingarferli hinnar sjö ára gömlu Klöru sem slasaðist alvarlega í slysinu og fjölskyldu hennar.

Ljóst er að Klara mun þurfa að berjast út ævina við einhverja hreyfihömlun og málerfiðleika.

Klara og fjölskylda hennar var að njóta sumarfrísins á Akureyri í veðurblíðunni í fyrra þegar slysið varð og lenti Klara á gjörgæslu. Hún hefur verið í stífri endurhæfingu síðan.