Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um mann rétt fyrir klukkan tvö í nótt sem var að hoppa á þaki bifreiðar í miðbænum. Lögregla handtók viðkomandi og flutti á lögreglustöð.
Í skeyti frá lögreglu kemur fram að þegar þangað var komið hafi maðurinn reynt að bíta lögreglumenn auk þess að hóta þeim lífláti. Hann var vistaður í fangaklefa vegna rannsóknar málsins.
Íbúi í fjölbýlishúsi miðsvæðis í Reykjavík hafði samband við lögreglu rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi vegna gruns um að kannabisræktun færi fram í íbúð í húsinu. Lögregla fór á vettvang en engin kannabisræktun reyndist vera í umræddri íbúð.
Lögregla veitti ökumanni bifreiðar athygli á ellefta tímanum í gærkvöldi en sá hafði ekið gegn rauðu ljósi. Lögregla gaf ökumanninum merki um að stöðva en hann hélt för sinni áfram og reyndi að stinga lögreglu af.
Í skeyti frá lögreglu kemur fram að viðkomandi hafi að lokum stöðvað bifreiðina og reyndi hann að hlaupa undan lögreglu. Hann hafði ekki erindi sem erfiði og var hlaupinn uppi. Maðurinn er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum vímuefna og þá var hann eftirlýstur hjá lögreglu vegna annarra mála. Hann var vistaður í fangaklefa vegna rannsóknar málsins.