Þar var því haldið fram á heimasíðu umboðsins að drægi bílsins væri 470 kílómetrar sem myndi duga til aksturs frá Osló til Hemsdal-skíðasvæðisins og aftur til baka. Það kom svo í ljós að það var ekki raunin þótt um opinberar WLTPtölur Polestar 2 væri að ræða, alla vega ekki að vetri til. Þess vegna var textanum breytt og talað um Norefjell í staðinn, sem eru 230 kílómetrar fram og til baka. Það sem málið snýst um er hvort fyrirtækið hafi brotið markaðslög með því að auglýsa með þessum hætti. Því vilja þeir sem keyptu bílana áður en textanum var breytt fá bætur sem hljóða upp á 75.000 krónur norskar hver, en um 3.500 kaupendur er að ræða.