Hundruð her­manna í hóp­kúri í þing­húsi Banda­ríkjanna vakti at­hygli blaða­manna sem áttu þar leið hjá í dag. Her­mennirnir eru auð­sjáan­lega lúnir eftir varð­skyldur undan­farna daga, líkt og sjá má á mynd neðst í fréttinni.

Yfir­völd hafa aukið mjög á öryggis­ráð­stafanir í kringum þingið í kjöl­far á­rásarinnar í síðustu viku sem kostaði fimm manns­líf. Eru þúsundir þjóð­varð­liða stað­settir í kringum þing­húsið en til stendur að kjósa um það hvort Banda­ríkja­for­seti verði á­kærður til em­bættis­missis í dag.

Þá hafa þjóð­varð­liðarnir sett upp sér­stakar girðingar í kringum húsið auk vega­tálma til að gera væntan­legum á­rásar­mönnum erfiðara fyrir. Bættust við 3000 þjóð­varð­liðar í hópinn í dag en banda­ríska al­ríkis­lög­reglan FBI hefur varað við að hópar hægri öfga­manna ætli sér frekari að­gerðir víðs­vegar um Banda­ríkin á næstu dögum.

Frétta­maður NBC, Nat­haniel Reed gekk fram á hóp hundruð her­manna í dag þar sem þeir lögðu sig fyrir utan gesta­mið­stöð full­trúa­deildar Banda­ríkja­þings. Lýsir hann því hvernig margir faðmi skot­vopn sín og hafi her­klæði sín yfir hausum sínum til að halda úti birtunni. Öðrum búnaði hafi verið staflað saman í snyrti­lega bunka á meðan þeir sofa.