Grafíski hönnuðurinn Zita Major og eiginmaður hennar, Peter Garajszki, hafa hrint af stað hópfjármögnun í gegnum Karolinafund fyrir sérstökum skipulagsseglum fyrir einhverfa en sonur þeirra hjónanna greindist með einhverfu fyrir þremur árum, þegar hann var fimm ára gamall.  

Að sögn Zitu komust þau fljótlega að því að sonurinn ætti það til að missa stjórn og falla saman í ákveðnum aðstæðum en vissu ekki almennilega hvað væri að valda því. Dóttir þeirra fæddist um svipað leiti og héldu þau fyrst að hann væri einfaldlega öfundsjúkur.

Síðar kom þó í ljós að flest köstin hans væru tilkomin vegna óöryggis þar sem hann hafði ekki stjórn á aðstæðum og athyglin hafði færst frá honum. „Heimurinn sem við sáum var ekki eins fyrir hann, fyrir honum var heimurinn á hvolfi og honum leið ekki vel vegna þess,“ segir Zita. Fjölskyldan ákvað því að leita leiða til að hjálpa honum að takast á við daglegt líf.

Zita hannaði og málaði myndirnar sjálf.
Mynd/Peter Garajszki

Hefur fengið mikil viðbrögð

Hún lýsir því að þau hafi fengið sjónræn skipulagsspjöld frá leikskólanum en þar sem myndirnar voru einfaldar teikningar segir Zita að hún hafi sem grafískur hönnuður ekki verið nógu ánægð með spjöldin. Eftir að hafa leitað án árangurs á netinu að öðrum spjöldum ákvað hún að gera sín eigin og deildi þeim á vefsíðu sinni ef einhver skyldi vera áhugasamur um þær.

Zita hannaði og málaði fígúrurnar á spjöldunum sjálf og fengu þær nafnið Emotiblots. Að hennar sögn gera þær sjónræna skipulagið heildrænna og börn elska þær. „Við notum spilin á hverju einasta degi og höfum gert það í tvö ár, jafnvel með dóttur okkar sem er ekki með einhverfu.“

„Ég hef fengið mikil viðbrögð frá þeim sem fylgja mér. Ég fæ nánast daglega skilaboð frá foreldrum sem nota spjöldin og heyrt þeirra sögur,“ segir Zita.

Hún minnist þess að hafa fengið skilaboð frá konu sem hafði verið að nota tilfinningaspjöld frá Zitu með dóttur sinni þar sem hún hafði ekki sofið eðlilega því hún var svo myrkfælin. Eftir að hafa notað spjöldin gat hún loksins sofið eðlilega. „Það voru svona fyrstu viðbrögðin sem ég fékk og það var mjög gott að finna að þetta væri að hafa áhrif.“

Zita ákvað að lokum að setja myndirnar á segla úr viði.

Zita og Peter hafa búið á Íslandi í ellefu ár en þau koma upprunalega frá Ungverjalandi og var fjallað um spjöldin af fréttamiðli þar. „Síðan hélt það bara áfram að vaxa og nú er ég með um tólf hundruð manns á póstlista,“ segir Zita en að hennar sögn eru flestir fylgjendur hennar frá Ungverjalandi.

Vill ná betur til Íslendinga

Eftir að hafa fengið frábær viðbrögð við spjöldunum ákvað hún að prófa sig áfram og datt að lokum í hug að myndirnar yrðu úr viði þar sem hún var mjög hrifin af viðarleikföngum. „Ég hafði samband við nokkur fyrirtæki og óskaði eftir sýnishornum svo ég gæti séð hvað myndi virka,“ segir Zita.

Að lokum fundu þau fyrirtæki á Bretlandi sem lofaði góðu og ákváðu í kjölfarið að myndirnar yrðu gerðar að seglum. „Ég var með Facebook hóp og þegar ég sýndi þeim seglana þá spurðu þau hvort þau gætu fengið líka.“

So today I start a series, called "Autism Notes". I hope these short articles help in bringing autism a little closer to...

Posted by Emotiblots on Wednesday, August 12, 2020

„Mig langaði að gera þetta í mars og ég auglýsti meira að segja allt í janúar, en síðan komu leikskólaverkföllin og Covid,“ segir Zita en bætir við að hún telji rétta tímann vera kominn. Hún ákvað að hópfjármagna verkefnið aðallega þar sem hún hefði ekki getað fjármagnað það sjálf en einnig til þess að hún gæti náð betur til Íslendinga. Þá væri hópfjármögnun góð leið til að sjá hvað fólk vill. 

Á meðan söfnuninni stendur mun Zita á hverjum degi birta færslur á Facebook með punktum um einhverfu sem er ætlað að vekja athygli og fræða fólk um einhverfu en færslurnar verða á íslensku, ensku og ungversku.

Markmiðið með söfnuninni er að safna ellefu þúsund evrum fyrir ellefta september næstkomandi en ef markmiðið næst fer það allt í að standa straum af kostnaði við framleiðslu og lagalegan kostnað. „Þetta er bara fyrsta skrefið því að sjálfsögðu er þetta bara lágmarksupphæð sem ég þarf til að panta og til að ná ákveðnu verði,“ segir Zita.

Á heimasíðu söfnunarinnar er hægt að velja hvaða pakka maður vill.

Markmiðið að senda út fyrir jólin

Eins og staðan er í dag er aðeins hægt að velja fyrir fram ákveðin sett en hægt er að velja einn til þrjá pakka en hver pakki er með átta mismunandi segla. Zita tekur þó fram að ef fólk vill ekki heil sett geti það enn lagt söfnuninni lið, sem eykur líkurnar á að hægt verði í framtíðinni að framleiða staka segla. 

Fyrsta settið snýr að morgunathöfnum, annað settið snýr að dagskrá yfir daginn og þriðja settið inniheldur enn fleiri athafnir. Hægt er að velja um íslenskan, enskan eða ungverskan texta á seglunum. „Síðan ef það er áhugi til staðar þá getur þetta þróast og orðið meira persónumiðað.“ 

„Við stefnum á að senda seglana út í tæka tíð fyrir jólin svo allir geti tryggt sér þá fyrir þann tíma, en auðvitað fer það eftir því hvernig ferlið gengur,“ segir Zita. Þar sem hönnuninni er lokið á í raun aðeins eftir að koma seglunum í framleiðslu og ákveða umbúðir en Zita vill hafa umbúðirnar umhverfisvænar og endurnýtanlegar. „Ef söfnunin ber árangur þá getum við gert allt fljótlega.“

Hægt er að leggja söfnuninni lið hér.