Sigurður Þorsteinsson lifir fyrir hönnun, segir það ekki vinnuna sína heldur eitt helsta áhugamál sitt. Hann hefur unnið fyrir stórfyrirtæki víða um heim, líkt og Pepsi, ABB, Unicef, 3M og Unilever. Þá hefur hann meðal annars unnið fyrir íslensku stórfyrirtækin Bláa Lónið og 66°Norður.

Fyrsti hluturinn sem Sigurður hannaði, þá tæplega þrítugur, var penni en Sigurður var þá nýútskrifaður úr námi í iðnaðar- og vöruhönnun frá IED-skólanum í Mílanó á Ítalíu. Hann segist heppinn að hafa fengið tækifæri til að hanna hlut strax eftir nám, en það sé óalgengt. „Að fara á veitingastað og sjá þjóninn taka niður pöntunina með pennanum sem ég hafði hannað þótti mér voðalega gaman svona nýskriðinn úr skóla. Það var ákveðið kikk,“ rifjar Sigurður upp glaður í bragði.

Sigurður útskýrir að þótt penninn hafi verið hefðbundinn í útliti, fallegt, klassískt ítalskt merki, hafi hann verið hagnýtur. Hann hafi ekki verið með tappa ofan á heldur klikk-fídus. „Vinur minn þoldi mig ekki. Hann var að taka lokapróf í arkitektúr þar sem prófessorinn sat og yfirheyrði hann, alltaf með pennann klikk, klakk, klikk, klakk. Þetta er kannski táknrænt, þetta er bara penni, fallegt form, en hann er hagnýtur og með ákveðnum smáatriðum.“

Penninn sem Sigurður hannaði.
Mynd/aðsend

Svaf í hengirúmi í átta mánuði

Eftir námið hafði Sigurður ákveðið að vera áfram í Mílanó og viða að sér reynslu í hönnun. Design Group Italia réð hann í vinnu einungis tveimur dögum eftir útskrift og segir hann fyrstu mánuðina hafa verið ákveðið ströggl. Námslánin voru búin og foreldrar hans gátu ekki stutt hann fjárhagslega.

Til að spara sér húsaleigu svaf hann í hengirúmi sem hann flakkaði með á milli vina og skólafélaga í rúma átta mánuði. Þá hafi komið stundir þar sem hann átti ekki annan samastað en vinnustaðinn. „Ég gat alltaf farið í stúdíóið og sofið þar í verstu tilfellunum. Ég átti ekki að gera það en ég gerði það samt, ég var með lykla.“

Sigurður telur marga Íslendinga sem hafa stundað nám erlendis og ákveðið að dvelja áfram úti eiga svipaða sögu að segja. Þetta sé ákveðið ferli sem fólk þurfi að ganga í gegnum. „Auðvitað var þetta mjög gaman. Ég held að mannskepnan sýni sitt besta undir álagi. Ef lífið er of einfalt og auðvelt þá týnumst við frekar. Undir álagi hefur maður ekki tíma til að velta sér upp úr hlutunum,“ segir hann.

Varð meðeigandi eftir tvö ár

Tveimur árum eftir að Sigurður hóf störf hjá Design Group Italia var fyrirtækið í erfiðri stöðu. Eftir efnahagskreppu á Ítalíu var reksturinn erfiður. Eigandinn greip þá til þess ráðs að bjóða starfsfólki sínu, sem þá taldi um tuttugu manns, að gerast meðeigendur til að bjarga fyrirtækinu.

„Ég hafði engu að tapa þannig að ég sagði já. Það voru margir eldri starfsmenn sem afþökkuðu og misstu starfið,“ segir Sigurður. Árið 1994 var Sigurður, tæplega þrítugur, því orðinn meðeigandi í Design Group Italia. „Við lækkuðum í launum, það var hluti af þessu. Ég var með í að stýra fyrirtækinu og á tímabili vorum við bara þrír. Síðan erum við búnir að stíga hægt og rólega upp.“

Hönnun er 360 gráður

Sigurður segist aldrei hafa ætlað að dvelja lengi hjá Design Group heldur hafi hann haft í hyggju að fara í frekara nám. Hins vegar sé hann nú, hátt í þrjátíu árum síðar, enn á sama stað. Hægt og rólega hafi fyrirtækið stækkað og tekið á sig fjölbreyttari mynd. Í dag eru starfsmenn um áttatíu talsins.

„Við erum skrýtið fyrirtæki, með mjög vítt hlutverk. Það er að hluta af því að ég hef trú á því að hönnun sé 360 gráður.“ Með því segist hann eiga við að fyrirtækið geti sinnt öllum helstu þörfum hönnunar; fyrir notanda, neytanda og njótanda. Það sé eitt af því sem hann hafi fengið að gera í verkefnum sínum á Íslandi, meðal annars fyrir Bláa Lónið og 66°Norður.

„Öll erlend stórfyrirtæki brjóta þessa þjónustu niður. Fyrir mér er það mjög vitlaus nálgun því þá hefur þú ekki heildarsýn. Ísland er mikið opnara og ég hef fengið að vera með puttana í öllu. Til dæmis má benda á árangur 66°Norður þegar við endurskoðuðum allt vörumerkið,“ segir Sigurður. Árangurinn hafi ekki leynt sér og það sama eigi við um Bláa Lónið.

The Retreat stærsta verkefnið

Þrátt fyrir að hafa búið í Mílanó í 33 ár hefur Sigurður aldrei sagt bless við Ísland. Hann hóf samstarf við Bláa Lónið og 66°Norður árið 1997. Árið 2005 hafi samstarfinu við 66°Norður lokið en hann vinnur enn í dag fyrir Bláa Lónið. „Ég er pínulítið faldi maðurinn á bak við Bláa Lónið.“

Aðspurður hvað sé stærsta verkefnið á ferlinum svarar Sigurður um hæl: „The Re­treat-hótelið í Bláa Lóninu. Það tók fjögur ár af mínu lífi. Þar fengum við möguleikana. Ég veit ekki hvort Íslendingar geri sér grein fyrir því en þetta er flottasta lúxushótel í Skandinavíu og reyndar víðar. Á tveimur árum fengum við 32 hönnunarverðlaun. Við erum ekki að tala um lítil verðlaun heldur þau mikilvægustu sem þú getur fengið.“

Meðal verðlauna sem verkefnið hlaut voru Best of the Best hönnunarverðlaun Red Dot árið 2019 sem þykja ein virtustu hönnunarverðlaun heims. Design Group Italia og Basalt Arkitektar hönnuðu The Retreat í samstarfi við Bláa Lónið.

Louis Poulsen í D Studio í Kaupmannahöfn.
Mynd/aðsend

Stærstu hönnuðir heims

Nýjasta verkefni Sigurðar var nýlega opnað á besta stað í Kaupmannahöfn og ber heitið D Stúdíó. Þar koma saman stærstu hönnunarfyrirtæki heims á borð við Lois Poulsen, Flos og B&B Italia í framúrstefnulegu sýningarrými. Sigurður segir markmiðið með hönnun rýmisins hafa verið að búa til áfangastað fyrir fólk, þar sem það getur staldrað við og fengið ýmsa þjónustu.

Hannaðar hafi verið ólíkar ferðir fyrir hvern og einn, venjulega neytendur, arkitekta, stúdenta, innanhússarkitekta, fasteignasala, hönnuði og fleiri. Vörum sé raðað saman með óvenjulegum hætti sem auðveldi fólki að ímynda sér vörurnar í sínu eigin lífi.

Aldeilis glæsilegt, ítölsk og skandinavísk hönnun mætast í D Studio.
Mynd/aðsend