Honda ákvað að halda sömu vélinni en afl hennar hefur verið aukið í 325 hestöfl og 420 Nm af togi. Aflaukningin er 9 hestöfl og 20 Nm, þökk sé nýrri gerð forþjöppu. Þá hefur bíllinn fengið nýja sex gíra beinskiptingu og breiðari 265 mm dekk. Þó að upptak bílsins hafi ekki verið gefið upp ennþá má búast við að hann bæti aðeins tíma fyrri kynslóðar sem var 5,7 sekúndur í hundraðið. Nýi bíllinn var ekki lengi að slá brautarmetið á Suzuka-brautinni fyrir framdrifsbíla en hann fór áttuna þar á 2 mínútum og 23,12 sekúndum. Það er tæpri sekúndu betra en tími fyrri methafa, Civic Type R Limited Edition af fyrri kynslóð. Honda hefur látið hafa eftir sér að bíllinn muni líka reyna við brautarmetið á Nurburgring fyrir framdrifsbíla.