Honda hefur látið frá sér fyrstu opinberu myndirnar af næstu kynslóð Type R-bílsins. Á myndunum er bíllinn sýndur í felubúningi við prófanir á Nurburgring-brautinni í Þýskalandi og sýna þær lítils háttar breytingar á því róttæka útliti bílsins sem verið hefur við lýði síðan 2015. Bíllinn byggir samt sem áður á grunni elleftu kynslóðar Honda Civic-fjölskyldubílsins sem frumsýndur var í júní. Að framan fær bíllinn díóðuaðalljós ásamt endurhönnuðu grilli og stuðara. Einnig virðast loftinntök að framan eitthvað breytt en felubúningurinn gerir sitt til að fela þær breytingar. Type R verður breiðari en hefðbundinn Civic og því eru hjólskálar hans breiðari, en sílsinn virðist einnig vera breiðari og með vindbrjót við afturhjólin. Afturendinn er breyttur og þá sérstaklega neðst þar sem kominn er stærri loftdreifir. Þrískipt pústkerfið heldur sér með breiðara röri í miðjunni, og komin er risastór vindskeið á skottlokið. Ekki er gert ráð fyrir að bíllinn fái neitt rafdrif í næstu kynslóð en Honda hefur þó ekki gefið það út ennþá.