Honda hefur frumsýnt fjögurra dyra Civic sem ætlaður er á markað í Bandaríkjunum. Fimm dyra útgáfa fyrir Evrópumarkað verður svo frumsýnd eftir nokkra mánuði. Um elleftu kynslóð þessa bíls er að ræða, en tíunda kynslóðin kom á markað fyrir aðeins fjórum árum síðan. Talsverðar breytingar eru þó á þessari kynslóð enda kemur Civic nú á markað í tvinnútgáfu fyrir Evrópu. Útlitslega er bíllinn einfaldari og hefðbundnari en áður, með lægri ljósum og breyttu grilli. A-biti bílsins er aftar til að vélarrými virki lengra, en óvíst er hvort þetta útlit verði á Evrópubílnum.

Talsverð breyting er á innréttingu bílsins hvort sem varðar útlit eða efnisval.

Innréttingin er mikið breytt og verður líklega sú sama í fimm dyra bílnum. Mælaborðið er lægra og láréttara með nýjum 9 tommu upplýsingaskjá. Auk þess er kominn nýr 10,2 tommu skjár fyrir framan ökumann, sem er í fyrsta skipti í Civic. Loks er stýrið alveg endurhannað. Efnisval verður betra með áherslu á mjúka hluti. Undirvagninn er aðeins þróun á fyrri kynslóð en er 8% stífari, með meiri sporvídd að aftan og nýrri álgrind fyrir vélarrúmið. Loks er búið að endurstilla stýrisganginn. Meiri öryggisbúnaður verður í nýjum Civic með nýrri kynslóð myndavéla og skynjara. Í Bandaríkjunum verður hann boðinn með 150 og 180 hestafla bensínvélum sem ekki verða í boði hérna megin við hafið. Þess í stað kemur sams konar tvinnbúnaður og í nýjum HRV og Jazz. Vænta má Type R útgáfu einhvern tímann á næsta ári.