Með nýrri reglugerð geta hommar loksins gefið blóð á Íslandi.

Hinsegin samfélagið hefur í áraraðir barist gegn mismunum á blóðgjöfum og með nýrri reglugerð, sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur sett í Samráðsgáttina, verður ekki lengur mismunað gegn samkynhneigðum karlmönnum í þessum málaflokki.

Á vef Stjórnarráðsins kemur fram að heilbrigðisráðherra hafi sett drög að breytingu á reglugerð um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs og viðauka IV við sömu reglugerð í Samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Breytingin felur í sér að óheimilt verður að mismuna blóðgjöfum á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða, svo sem kyns, kynhneigðar, uppruna eða stöðu að öðru leyti.

„Breytingin felur jafnframt í sér að kynhegðun veldur ekki lengur varanlegri frávísun blóðgjafar. Í staðinn er kveðið á um að blóðgjafi megi ekki hafa stundað áhættusamt kynlíf í fjóra mánuði fyrir blóðgjöf. Lögð er til skilgreining á því hvað telst vera áhættusamt kynlíf en í því felst að það sé kynlíf sem eykur verulegalíkur á að alvarlegir smitsjúkdómar berist með blóði,“ segir í tilkynningunni.

Í vefkönnun Samtakanna ´78, sem framkvæmd var haustið 2020, kemur fram að yfirgnæfandi meirihluti þeirra 140 einstaklinga sem tóku þátt í könnunni telja að hverfa þurfi frá þessum úreltu reglum.
Mynd: Samtökin '78

Úreltar reglur byggðar á fordómum í kjölfar AIDS-faraldurs

Samtökin '78 hafa ítrekað skorað á heilbrigðisyfirvöld, heilbrigðisráðherra, Blóðbankann og ráðgjafanefnd um fagleg málefni blóðbankaþjónustu að tryggja að reglum verði breytt í samræmi við stefnu stjórnvalda er varða bann við mismunun.

Samkvæmt núgildandi reglum, sem verður breytt með reglugerðinni, mega hinsegin karlmenn, þ.e. karlmenn sem hafa haft samfarir við aðra karlmenn, ekki gefa blóð. Regluna má rekja til Alnæmisfaraldursins þegar HIV-veiran dreifði sér um hinsegin samfélagið í Norður-Ameríku og svo víðar um allan heim. Þá settu flestar þjóðar í heiminum strangar reglur um að samkynhneigðir menn og aðrir karlmenn sem stunduðu kynlíf við aðra karlmenn mættu ekki gefa blóð.

Þá mætti segja að fordómar og ranghugmyndir hafi oft ráðið för í mörgum umræðum um HIV og alnæmi. Snemma í faraldrinum, áður en almennilegar rannsóknir hófust á veirunni, var sjúkdómurinn kallaður GRID eða „gay-related immune deficiency“. Í dag er vitað að allir geta smitast af HIV veirunni og skiptir kynhneigð, þjóðerni eða aldur ekki neinu máli hvað varðar smit.

Þessar reglur hafa verið gagnrýndar og muna eflaust margir eftir sprenghlægilegu atriði um blóðgjöf í Áramótaskaupinu 2018.

Hægt er að nálgast drög að reglugerðinni á Samráðsgáttinni. Hægt er að senda inn umsögn fyrir 23. september. Breytingin á að taka gildi þann 1. janúar næstkomandi.