Það er allt brjálað að gera hjá okkur vegna Covid. Venjulega er tíminn milli jóla og nýárs frekar rólegur tími, en nú erum við að berjast við aukna eftirspurn,“ segir Thelma Björk Wilson, framkvæmdastjóri þjónustu- og notendaupplifunar hjá Heimkaupum sem selur matvæli á netinu og ekur þeim heim til fólks.

Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir markaðsstjóri hjá Samkaupum, sem reka Nettó-verslanakeðjuna og Nettó-netverslun, tekur í sama streng.

„Þetta er alger holskefla,“ segir hún. „Við fundum fyrir því rétt fyrir jólin þegar sóttvarnir voru hertar, að sala á matvælum og heimilisvörum tók mikinn kipp,“ bætir Ingibjörg Ásta við.

Ingibjörg Ásta segir ástæðuna þá að fólk sé í sóttkví og einangrun og svo séu margir sem veigri sér við að fara í verslanir á þessum tímum, af ótta við að smitast af Covid. Í gær voru yfir sjö þúsund einstaklingar í sóttkví hér á landi og rétt tæplega fimm þúsund voru í einangrun með virkt Covid-19 smit.

Thelma Björk Wilson, framkvæmdastjóri þjónustu- og notendaupplifunar hjá Heimkaupum.
Fréttablaðið/Ernir

Þúsund pantanir á dag

Thelma hjá Heimkaupum segir að afgreiddar séu um 1.000 pantanir á dag og álagið sé mikið í vöruhúsinu. Fólk sé að kaupa alls konar mat, en líka mikið af snakki, sælgæti og gosdrykkjum.

„Það er líka mikið um það að fólk komi og sæki fyrir ættingja og vini sem ekki geta farið ferða sinna vegna Covid,“ segir Thelma.

„Við förum að öllu með gát og skiljum vörurnar eftir við dyrnar hjá fólki sem er í sóttkví eða einangrun,“ segir Thelma.

Ingibjörg segir að hjá Nettó sé til nóg af vörum til að anna eftirspurn, en biðtími eftir heimkeyrslu á pöntunum sé þó farinn að lengjast vegna álagsins.

„Við höfum verið í stanslausum ráðningum, því að við finnum fyrir mikilli kröfu frá fólki að fá vörur sínar afhentar sem fyrst,“ segir Thelma.

„Þegar við vorum búin að ráða mannskap fyrir jól þá héldum við að það myndi duga en vegna þess hve það er óvenju mikið að gera núna milli jóla og nýárs vegna faraldursins þurfum við að bæta við enn fleira starfsfólki,“ bætir Thelma við.