„Verktakinn mun ekki fá lokaúttekt á þennan stíg fyrr en við erum orðin samþykk honum,“ segir Gunnar Atli Hafsteinsson, hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur, um nýjan hjólastíg við Veðurstofuna.

Stutt er síðan stígurinn var lagður, en stórar holur eru á honum eftir þungar vinnuvélar. Verktakinn Háfell ehf. sér um verkið og er stígagerðinni ekki lokið þó hjólreiðamenn geti nýtt sér hann.

Gunnar Atli segir að nokkrir starfsmenn borgarinnar sem hjóla til vinnu hafi einmitt farið um téðan stíg og haft orð á ástandinu.

„Ég er búinn að hjóla stíginn sjálfur og þetta er auðvitað ekki í lagi og við munum laga hann. En hann er ekki tilbúinn og við leyfum okkur að hafa hann opinn. Við erum meðvitaðir um þessar skemmdir sem er leiðinlegt því það er alltaf vont að bútalaga.“

Hann segir að ástæðan fyrir holunum sé í raun einföld. Ákveðið var eftir að stígurinn var kominn að vippa upp hljóðmön þar sem þungavinnuvélar þurftu að keyra efni í og vinna.

„Það var erfitt að keyra efni að möninni öðruvísi og það hefði hleypt kostnaði upp að gera þetta öðruvísi. En stíginn þarf að laga þó allir séu sáttir við þessa samgöngubót,“ segir Gunnar Atli.