Rúmlega 50 manns hafa verið ákærð fyrir víðtækt svindl er varðar inngöngu barna þeirra inn í virta bandaríska háskóla líkt og Yale, Stanford og Georgetown en um er að ræða eitt viðamesta háskólasvikamál sem bandaríska alríkislögreglan hefur haft til rannsóknar, að því er fram kemur í umfjöllun CNN.

Meðal þeirra sem ákærð eru eru leikkonurnar Felicity Huffman, sem þekktust er fyrir leik sinn í þáttunum Desperate Housewifes og Lori Loughlin úr þáttunum Fuller House. Flestir hinna ákærðu eru afar auðugir og meðal þeirra er að finna forstjóra stórra bandarískra fyrirtækja.

Settu andlit barnanna á myndir af íþróttafólki

Að því er fram kemur fólst svindlið í tveimur aðgerðum. Foreldrarnir eru sagðir hafa borgað ákveðnum undirbúningssamtökum til að taka inntökupróf fyrir nemendur eða lagfæra svör þeirra. Þá eru umrædd samtök sögð hafa mútað þjálfurum í háskólunum fyrir að aðstoða nemendur við að komast inn í skólana og tekið inn íþróttafólk, óháð getu þeirra eða afrekum að því er fram kemur í máli ákæruvaldsins. 

Ekkert bendir til þess að skólarnir hafi sjálfir tekið þátt í svikunum og hefur starfsfólki innan skólanna sem mútað var og tók þátt ýmist sett í tímabundið leyfi eða því sagt upp störfum. Í forsvari samtakanna sem standa að baki svindlinu er maður að nafni William „Rick“ Singer og er hann sagður hafa viðurkennt sök sína frammi fyrir dómara. 

Þannig er því lýst hvernig Singer og samstarfsfólk hans aðstoðaði foreldra, meðal annars með því að breyta myndum af íþróttafólki og setja andlit barna þeirra inn á myndirnar, en afar algengt er að afreksfólki í íþróttum sé veittur skólastyrkur í virtum háskólum í Bandaríkjunum. Hann gæti fengið allt að 65 ára fangelsisdóm fyrir athæfið.

Foreldrar borguðu allt að 6,5 milljónir bandaríkjadollara

„Þessi foreldrahópur endurspeglar þá ríku og þá sem eru með mikil forréttindi,“ segir saksóknarinn Andrew Leiling á blaðamannafundi. Huffman er þannig sögð hafa borgað samtökunum rúmlega 15.000 bandaríkjadollara, eða því sem nemur 1,8 milljónum króna.

Þá er hún sögð hafa ætlað að taka þátt í annað sinn fyrir yngri dóttur sína en ákveðið að gera það ekki. Leikkonan er sögð hafa rætt ráðabruggið við vitni sem aðstoðaði FBI. 

Þá er Loughlin sögð hafa borgað því sem nemur 500 þúsundum bandaríkjadollara, eða rúmar 58 milljónir íslenskra króna, til að koma dætrum sínum tveimur í University of Southern California. 

Að sögn bandarísku alríkislögreglunnar borguðu foreldrar allt að 6,5 milljónir bandaríkjadollara, eða 763 milljónir króna til að koma börnum sínum inn í virta skóla. Brotin ná frá árunum 2011 til 2019.